Gular veðurviðvaranir eru nú í gildi á Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Suðausturlandi. Viðvaranirnar munu gilda fram eftir degi og þangað til um sjö í kvöld. Fólk er hvatt til að huga að lausamunum og fara varlega. Þeir sem ætla í ferðalög upp á heiðar eru sérstaklega beðnir um að vera vel vakandi þar sem skilyrði eru slæm. Þetta segir Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Slæmt ferðaveður er á austanverðu landinu en útlit er fyrir skafrenning og lélegt skyggni á Austfjörðum og vind upp í 28 metra á sekúndu.
Í Vatnsskarði eystra hefur vindur mælst í tæplega 37 metrum á sekúndum.
Smá éljagangur er fyrir norðan og austan, og stormur eða rok er á austanverðu landinu. Hefur sýnatökum verið aflýst á Austurlandi vegna veðurs.
Þá er búist við björtu veðri sunnan og vestan lands.