Lokaúthlutun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á stofnframlögum til byggingar og kaupa á hagkvæmum íbúðum var kynnt á síðasta degi ársins.
Hún mun renna til kaupa á 82 hagkvæmum íbúðum sem verða leigðar út til almennings á hagstæðum kjörum en leigutakar þessara íbúða munu þurfa að uppfylla skilyrði um að vera undir útgefnum tekju- og eignamörkum, að því er segir í tilkynningu.
Á þessu ári hafa verið keyptar eða hafin bygging á alls 364 íbúðum með stofnframlögum sem numið hafa 2,7 milljörðum króna og nemur heildarfjárfestingin 12,8 milljörðum á árinu 2021.
Íbúðirnar eru reistar og reknar af ýmsum aðilum, meðal annars íbúðafélagi verkalýðshreyfingarinnar Bjargs og Brynju byggingarfélagi ÖBÍ. Framlögunum, sem HMS hefur umsjón með að veita, var komið á í tengslum við kjarasamninga fyrir nokkrum árum og er ætlað að styðja við framboð hagkvæmra leiguíbúða fyrir tekjulága á Íslandi og lækka verulega húsnæðiskostnað.
HMS hefur úthlutað stofnframlögum sem þessum, tvisvar á ári frá árinu 2016. Alls hefur 18 milljörðum króna verið útdeilt í bein stofnframlög vegna byggingar eða kaupa á 2.981 íbúð á þessum fimm árum og eru hluti af nýju húsnæðiskerfi fyrir tekjulægri hópa.
Um tvö þúsund íbúðir af þeim sem hafa fengið fjárframlögin eru enn í byggingu eða á teikniborðinu en búið er að taka rúmlega eitt þúsund íbúðir í notkun. Það þýðir að um eitt þúsund fjölskyldur og einstaklingar, undir ákveðnum tekju- og eignamörkum, hafa flutt inn í leiguíbúðir þar sem ekki er hægt að vísa þeim út (nema að ströngum skilyrðum uppfylltum) og þar sem leigan er alla jafna um um 20% undir markaðsleigu á almennum markaði (skv. útreikningum Bjargs íbúðafélags).
Heildarfjárfestingin í þessu nýja opinbera húsnæðiskerfi um allt land síðustu fimm árin nemur nú tæplega 93 milljörðum króna, þegar framlög sveitarfélaga og lánsfjármögnun lánastofnana hafa verið talin með.
„Það er mikilvægt að staldra við á þessum tímamótum og átta okkur á hversu mikil breyting hefur orðið í húsnæðismálum þess hóps sem tilheyrir tveimur lægstu tekjufimmtungunum hér á landi. Við erum að tala um 93 milljarða fjárfestingu í húsnæðiskerfi sem var ekki til á Íslandi áður, en er vel þekkt í Danmörku og Þýskalandi. Þetta er orðið áþreifanlegra nú þegar fólk er flutt inn í þriðjunginn af þessum íbúðum, eða alls 1.008 íbúðir nú um áramótin, en tveir þriðju íbúðanna eru komnar mislangt í byggingu,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS, í tilkynningunni.
„Þegar íbúðirnar verða allar komnar í notkun þá erum við að tala um hátt í tíu þúsund Íslendinga, sem áttu ekki rétt á félagslegu leiguhúsnæði og voru að verja um og yfir helmingi ráðstöfunartekna sinna í leigu, sem búa nú við allt annað og betra húsnæðisöryggi. Leigumarkaðurinn, eins og hann var, þjónaði mjög illa þörfum þessa fólks enda óöryggið mikið og hækkanir á leigu tíðar. Húsnæðisfélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og sem njóta meðgjafar ríkis og sveitarfélaga í formi stofnframlaga eru mun hentugri leigusali fyrir þennan hóp. Viðkvæmir hópar á húsnæðismarkaði eins og fólk af erlendum uppruna, einstæðir foreldrar, svo ekki sé talað um öryrkja, eru á meðal þeirra sem hafa nýtt sér að leigja þessar nýju hagkvæmu íbúðir og tryggja sér þannig búsetu í skólahverfum barna sinna og bætta framfærslu sem leiðir af lægri leigugreiðslum, svo dæmi sé tekið. Þetta skiptir verulegu máli,“ segir Hermann.