Lifir og hrærist á gönguskíðum

Einar Ólafsson gönguskíðakappi í Bláfjöllum.
Einar Ólafsson gönguskíðakappi í Bláfjöllum. Ljósmynd/Óskar Páll Sveinsson

Arkitektinn Einar Ólafsson setti Íslandsmet í skíðagöngu þegar hann gekk 202,9 km á 20 tímum með stoppi í styrktargöngu fyrir Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Snorri Einarsson átti fyrra metið, 201 km, frá því í fyrravetur. „Áður hafði ég gengið lengst 100 kílómetra,“ segir Einar, sem á glæstan feril að baki í skíðagöngu.

„Gengið í ljósið fyrir Ljósið“ fór fram í Bláfjöllum á stysta degi nýliðins árs og hófst klukkan 16 þriðjudaginn 21. desember. Hugmyndin var að ganga fram að sólarupprás morguninn eftir og þá hættu fjórir göngugarpar af fimm í hópnum, þau Óskar Páll Sveinsson sem átti hugmyndina og fékk Einar með sér í skipulagninguna, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé sem gekk 120 km, sem er sennilega Íslandsmet kvenna, Kristján Sigurðsson og Sigrún Rósa Björnsdóttir. „Ég ákvað að reyna að slá Íslandsmetið og gekk tveimur tímum lengur, til klukkan tólf.“

Þegar Einar var barn og unglingur var algengt að krakkar væru í mörgum íþróttagreinum. „Ég æfði allar íþróttir, var mikið í fótbolta og hlaupum, en þegar ég var 17 ára sá ég að skíðagangan hentaði mér einna best. Mér fannst þetta besti félagsskapurinn og mér þótti gaman og þykir enn gaman að ögra sjálfum mér líkamlega. Gangan passaði því eins og flís við rass.“

Á keppnisárunum var Einar margfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu auk þess sem hann stóð sig vel á alþjóðlegum mótum og keppti meðal annars á Vetrarólympíuleikunum 1984 og 1988. Stoltastur er hann af árangrinum á sænska meistaramótinu 1986, en þá varð hann í áttunda sæti í 15 km göngu og í níunda sæti í 50 km göngu. „Þetta er besti árangur minn á ferlinum en ég átti líka ágætis göngu í Vasa-göngunni 1987, þegar ég varð í 59. sæti af um 15.000 keppendum.“ Hann bendir á að á þessum árum hafi Svíar verið langbestir í skíðagöngu og átt sjö af tíu bestu göngumönnum í heimsbikarnum 1986. „Árangur minn á sænska meistaramótinu sama ár vakti því athygli í skíðaheiminum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert