Þorsteinn Sæberg, formaður skólastjórafélagsins, tekur undir með Salvöru Nordal um að ekki sé heppilegt að börn á aldrinum 5-11 ára séu bólusett við Covid-19 innan veggja grunnskólanna, á skólatíma.
„Okkur hefur ekki litist á þá aðgerð að það eigi að bólusetja á skólatíma. Við höfum talið á það eigi að aðskilja það með einhverjum hætti, varðandi þessar bólusetningar, þó að við þekkjum dæmi um að börn séu bólusett innan skólanna,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.
„Við teljum að þessar bólusetningar, gegn Covid-19 eigi ekki að vera með þessum hætti, innan skólanna og það er auðvitað ýmislegt sem kemur til sem við höfum bent á.“
Spurður hvað það sé helst sem komi til nefnir Þorsteinn sömu ástæður og umboðsmaður barna. „Til dæmis það sem hefur verið rætt; að sum börn verði ekki bólusett. Við höfum talið að það eigi ekki að blanda þessu saman af því að það verður persónugreinanlegt, hverjir eru bólusettir og hverjir ekki. Það tel ég ekki hæfilegt.“
Þorsteinn bendir einnig á að gert sé ráð fyrir að foreldrar, forráðamenn eða aðrir fullorðnir fylgi börnunum í bólusetninguna. „Við teljum líka, eins og staðan er í samfélaginu í augnablikinu, þar sem er gríðarlega mikið um smit og við höfum verið að takmarka aðgang fullorðinna að skólanum, þá teljum við óráð að foreldrar komi í stórum hópum.“
Þorsteinn segir það að foreldar fylgi börnum í bólusetningu á skólatíma fari gegn þeirri stefnu sem tekin hefur verið í sóttvörnum í grunnskólum. Hann kveðst taka undir það að bólusetningin færi fram í heilsugæslunni eða á tilgreindum bólusetningarstað.
Hann segir að bólusetning þessa aldurshóps við Covid-19 ekki hefðbundnar bólusetningar og skiptar skoðanir á þeim. Því sé ekki hægt að líkja framkvæmdinni saman við aðrar bólusetningar barna.