Björn Logi Þórarinsson, læknir á Landspítalanum sem sendur var í leyfi vegna ásakana nokkurra samstarfskvenna hans um kynferðislega áreitni, hefur snúið aftur til starfa.
Þetta staðfestir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Björns Loga, í samtali við mbl.is. Björn Logi var sendur í leyfi í nóvember.
„Fyrirsvarsmenn Landspítalans áttuðu sig á því að það var enginn fótur fyrir neinum ásökunum á hendur manninum, og felldu bara málið niður,“ segir Jón Steinar og bætir við að spítalinn hafi átt engan annan kost í stöðunni.
Vísir greindi fyrst frá þessu, en vefurinn hefur haft eftir heimildum sínum að rannsókn á þessum ásökunum sé sú ítarlegasta sem gerð hafi verið innan spítalans í málum sem þessum.
Í umfjöllun Vísis segir að niðurstöður rannsóknarinnar hafi verið þær að framburður einnar konu þótti trúverðugur, um að Björn Logi hefði beitt hana kynferðislegri áreitni.
Aftur á móti hafi fá gögn legið málinu til stuðnings. Lögmaður spítalans hafi metið það svo að ef Björn Logi yrði áminntur og hann kærði áminninguna, stæðist hún varla.
Af þeim sökum hafi verið ákveðið að ljúka málinu með harðorðu bréfi til Björns Loga. Þar mun honum meðal annars hafa verið tjáð að hann yrði að láta af háttsemi sinni.