Vatnsleki leiddi til handtöku

Tilkynnt var um vatnsleka frá íbúð i Breiðholti um hálftíuleytið í gærkvöldi. Húsráðandi kom á vettvang og kom þá í ljós að þar var ræktun fíkniefna í gangi.

Lögreglan lagði hald á fíkniefni og búnað og var húsráðandinn handtekinn á meðan rannsókn og skýrslutaka fór fram. Að því loknu var hann látinn laus.  

Tvær konur slógust á hóteli

Um hálftvöleytið í nótt var tilkynnt um slagsmál á hóteli í hverfi 105. Þar tókust á tvær konur og voru þær handteknar, grunaðar um líkamsárás, þjófnað og vörslu fíkniefna. Þær voru færðar á lögreglustöð og látnar lausar að loknum viðræðum.

Um svipað leyti var tilkynnt um eld í ruslatunnu við Grasagarðinn í Laugardalnum. Glóð var eftir í ruslinu og slökkti slökkviliðið í glæðunum, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Upp úr klukkan hálfníu í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í hverfi 105 og var ökumaðurinn kærður fyrir að nota farsíma í akstri.

Eldur í girðingu

Tilkynnt var um eld í girðingu umhverfis ruslatunnur í Árbænum laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi. Tjón varð á girðingu og ruslatunnum.

Tilkynning barst lögreglunni laust fyrir klukkan 21 í gærkvöldi um óvelkominn mann á vappi um hótel í Reykjavík. Hann var handtekinn og við öryggisleit fundust ætluð fíkniefni hjá honum. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af honum og hann síðan látinn laus.

Bifreið var stöðvuð við gatnamót í hverfi 105 á níunda tímanum í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur gegn rauðu ljósi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert