Vont veður og mikil snjókoma hefur verið á Austurlandi og er víðsvegar ófært. Beðið er eftir því að veðrið gangi niður til að moka íbúðabyggðir.
Þetta segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, í samtali við mbl.is.
„Það er búið að vera mjög vont veður hjá okkur hérna á Austfjörðum. Við höfum verið að ryðja stofnliði í bæjunum okkar til að halda þeim gangandi en höfum ekkert farið út í íbúðabyggðir.
Nú bíðum við eftir að veðrið gangi aðeins niður. Það er búið að vera sérstaklega vont á Eskifirði og Fáskrúðsfirði en einnig er töluverð ófærð á Reyðarfirði og Norðfirði. Við erum aðeins byrjuð að fikra okkur út fyrir stofnbrautir á þeim stöðum þar sem veðrið hefur aðeins gengið niður,“ segir Jón Björn.