Forseti Alþýðusambandsins segir sambandinu ekki hugnast nýjar reglur um vinnusóttkví sem kynntar voru daginn fyrir gamlársdag.
Reglurnar voru upphaflega kynntar án samráðs við ASÍ og síðar dregnar til baka vegna þess. Víðir Reynisson aðstoðaryfirlögregluþjónn viðurkenndi mistök og var því verkefninu seinkað. Nú gilda enn fyrri reglur um vinnusóttkví og sagði Víðir í samtali við mbl.is í gær að nú væri unnið að betri lausn.
„Okkur hugnast það ekki, út frá bæði sóttvörnum og stöðu launafólks, að atvinnurekendur hafi sjálfstætt vald til þess að kalla fólk úr sóttkví,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ við mbl.is.
Alþýðusambandið vilji frekar óbreyttar reglur. „Við viljum vinna þetta eins og þetta hefur verið gert, með samstarfi og samráði, það hefur svona verið grundvöllurinn í sóttvörnum okkar,“ segir Drífa.
„Þannig við gerðum athugasemdir við þetta.“
Hvort hún finni fyrir vonbrigðum í garð almannavarna segir hún:
„Víðir sagði bara að það hafi verið gerð mistök og þau bara verða. Það er bara þannig. Ef það verður óskað eftir frekari samtali þá tökum við þátt í því.“
Þeim sé ljóst að íþyngjandi ákvarðanir varðandi launafólk verði aldrei teknar nema í samstarfi og samráði við verkalýðshreyfinguna. „Við munum að sjálfsögðu ekki samþykja það að sóttvarnavaldið verði sett í hendur einstakra atvinnurekenda.
Það er alveg augljóst mál að það þarf að huga að réttindum og öryggi vinnandi fólks í þessu og það er okkar markmið.“