Alls hafa fjórir bólusettir einstaklingar lagst inn á Landspítala vegna Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar frá því að fyrsta tilfellið greindist hér á landi þann 1. desember. Þá hefur enginn bólusettur einstaklingur endað á gjörgæslu vegna afbrigðisins.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að alvarleg tilfelli væru allt að helmingi færri af völdum Ómíkron-afbrigðisins. Hins vegar væri hröð útbreiðsla þess áhyggjuefni og því ekki endilega jákvætt að afbrigðið væri að ná yfirhöndinni í bylgjunni sem stendur nú yfir.
Nú eru um 90% landsmanna, 12 ára og eldri, fullbólusettir og hafa tæplega 160 þúsund fengið örvunarskammt. Hafa því um 10% þeirra sem náð hafa 12 ára aldri ekki þegið bólusetningu.
Að sögn Þórólfs hafa heilbrigðisyfirvöld engar tölfræðilegar upplýsingar um hversu stórt hlutfall þessa hóps hefur ekki geta þegið bólusetningu vegna læknisfræðilegra ástæðna.