Sóttvarnaaðgerðir á landamærum óbreyttar til 28. febrúar

Frá Keflavíkurflugvelli. Mynd úr safni.
Frá Keflavíkurflugvelli. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á fundi ríkisstjórnar í morgun var ákveðið að framlengja óbreytta reglugerð um sóttvarnaráðstafanir á landamærum vegna Covid-19 til 28. febrúar. Þá var ákveðið að tillaga um fyrirkomulag á landamærum fyrir vorið verði kynnt fyrir 20. febrúar.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. 

Í samræmi við ósk sóttvarnalæknis skoðaði landamærahópur forsætisráðherra hvort forsendur væru fyrir því að krefja farþega um neikvætt PCR próf fyrir byrðingu og alla farþega sem kæmu til landsins um að fara í PCR próf á landamærunum.

Ekki er talið rétt að breyta fyrirkomulaginu á landamærunum nema mjög sterk rök hnígi til þess vegna þeirrar óvissu sem breytingar kunna að valda, að því er stjórnvöld greina frá. 

„Samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslunni eru tekin PCR sýni á Keflavíkurflugvelli úr yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem hafa tengsl við Ísland eða um 90% þeirra. Þá er því fylgt eftir af sóttvarnayfirvöldum að Íslendingar og þau sem hafa tengsl við Ísland og taka ekki PCR-próf á flugvellinum mæti í próf innan 48 klukkustunda frá komu.

Sú breyting verður gerð að gildistími bólusetningarvottorða verður 9 mánuðir í stað 12 mánaða. Er það í samræmi við nýjar reglur ESB,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert