Grunnskólar landsins hófu starfsemi sína aftur í dag eftir jólafrí en í gær var skipulagsdagur hjá skólunum til að gefa starfsfólki tækifæri til að laga starfsemina að sóttvarnaraðgerðum.
Í Melaskóla hefur gengið vel að fá krakkana aftur í skólann og er ekki mikið um að foreldrar kjósi að halda börnunum heima vegna fjölda Covid-19 smita í samfélaginu. Þetta segir Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Melaskóla, í samtali við mbl.is.
„Það gengur bara vel. Það er sérlega gaman að fá krakkana aftur í hús. Maður finnur hversu miklu máli það skiptir fyrir krakkana að koma hingað þar sem skólinn er í átt annað heimili fyrir marga þeirra,“ segir Jón Pétur.
Þó eru margir nemendur í sóttkví eða einangrun.
„Það er slatti af krökkum í sóttkví og einhverjir í einangrun. Í morgun voru 55 krakkar ekki í skólanum og eru það um 8% nemenda skólans, en það er ekki langt frá því sem er stundum ef það eru einhverjar kvefpestir sem geisa.“
Jón Pétur segir öruggt að í skólanum séu margir einstaklingar sem eru smitaðir og einkennalausir. Því segir hann skólastarfsfólk útsettustu stétt landsins og um það séu allskonar tilfinningar innan skólans.
Þá bendir hann á að ekki megi gleyma andlegu heilsu barna.
„Það eru fleiri þættir en bara smit og veikindi sem skipta máli í lífi fólks, andleg og félagsleg heilsa er ekki síður mikilvæg. Við reynum öll að koma til móts við það, sérstaklega hjá börnunum okkar. Hvort sem það er að taka þau í göngutúr, spila með þeim eða senda þau í skólann.“