Endurupptökudómur hefur hafnað beiðni lögmannsins Bjarnfreðs Ólafssonar um endurupptöku á hlut hans í Exista-málinu svokallaða þar sem Bjarnfreður og Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Exista, voru dæmdir fyrir brot gegn hlutafélagalögum í tengslum við útgáfu á nýju hlutafé í Exista í desember árið 2008.
Lýður var dæmdur sekur í héraðsdómi í maí árið 2013 en Bjarnfreður sýknaður. Í Hæstarétti hlaut Lýður svo átta mánaða dóm en Bjarnfreður sex mánuði, þar af þrjá skilorðsbundna.
Lýður var fundinn sekur um að hafa sem stjórnarmaður í öðru einkahlutafélagi greitt Exista minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta í félaginu, en greitt var með bréfum í þriðja einkahlutafélaginu sem metið hafði verið á einn milljarð. Bjarnfreður var sakfelldur fyrir að hafa sent villandi tilkynningu til fyrirtækjaskrár þar sem kom fram að hækkun á hlutafé Exista, að nafnverði 50 milljarðar króna, hefði að fullu verið greidd til félagsins.
Bjarnfreður vísaði málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu árið 2014 með sérstakri áherslu á álitaefni vegna stofnunar embættis sérstaks saksóknara, en dómstóllinn vísaði málinu frá ári síðar þar sem ekki væri uppfyllt skilyrði mannréttindasáttmálans um að málið væri tækt þar til meðferðar.
Á svipuðum tíma vísuðu fleiri aðilar málum sínum sem dæmt hafði verið í eftir fjármálahrunið til MDE, meðal annars Styrmir Þór Bragason, sem lagði íslenska ríkið þar sem deilt var um hvort brotið hefði verið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar. Ríkið gerði síðar sátt m.a. við þremenninga sem höfðu verið dæmdir í Milestone-málinu, en þar var um sömu málavexti að ræða og í máli Styrmis.
Í endurupptökubeiðni sinni taldi Bjarnfreður þó að brotið hefði verið á rétti sínum til milliliðalausrar málmeðferðar og að Hæstiréttur hafi endurmetið sönnunargildi framburða vitna og ákærðu í málinu fyrir héraði. Það hafi verið gert án þess að hann hafi getað veitt skýrslu fyrir Hæstarétti. Þá taldi Bjarnfreður að hann hefði verið ranglega sviptur lögmannsréttindum sínum og að dómari í málinu við Hæstarétt hafi verið vanhæfur vegna starfa sonar hans sem yfirlögfræðings Kaupþings og síðar lögfræðings hjá slitastjórn bankans.
Ríkissaksóknari krafðist þess að beiðninni yrði hafnað en tók fram að út frá fordæmum sem vísað væri til ætti Bjarnfreður þó „nokkuð til síns máls“ um að brotið hefði verið á rétti hans til milliliðalausrar málmeðferðar, en endurupptökudómur þyrfti að meta það. Taldi ríkissaksóknari að sakfelling í Hæstarétti byggði að verulegu leyti á skjallegum sönnunargögnum og þá lægi afstaða MDE ekki fyrir í málinu.
Endurupptökudómur segir í niðurstöðu sinni að sér beri að líta til dómaframkvæmdar MDE við mat á hvort verulegur galli hafi verið á málsmeðferð og MDE telji það ekki brot ef sakfelling ræðst af hreinu mati á lagaatriðum.
Segir í niðurstöðunni að það fáist ekki séð af „forsendum dóms Hæstaréttar að við skoðun á refsinæmi háttseminnar hafi á neinn hátt reynt á endurskoðun á munnlegum skýrslum sem gefnar voru fyrir héraðsdómi eða endurskoðun á huglægum þáttum sem þeim tengdust.“ Þá hafi heldur ekki nýtt eða víðtækara mat átt sér stað af hálfu Hæstaréttar á staðreyndum.
Sýkna héraðsdóms hafi ekki byggt á mati á munnlegum skýrslutökum heldur á skyldum Bjarnfreðs sem lögmanns. Hæstiréttur hafi metið skyldur hans sem lögmanns með öðrum hætti en héraðsdómur og túlkaði efni tilkynningar til fyrirtækjaskrár og sérfræðiskýrslunnar með öðrum hætti, en í málinu var meðal annars deilt um hvort Bjarnfreður hafi aðeins verið sendiboði eða komið að því sem sérfræðingur. Endurupptökudómur fellst heldur ekki á að sakfelling í málinu hafi byggst á samþættu endurmati á lögum og staðreyndum.
Þá fellst dómurinn ekki heldur á að Bjarnfreður hafi verið sakfelldur fyrir annað og meira brot en hann var ákærður fyrir né að úrlausn málsins hafi haft þýðingu fyrir fjárhagslega hagsmuni sonar eins dómarans og þar með á hugsanlegt hæfi dómarans. Er því endurupptökubeiðni Bjarnfreðs hafnað.
Uppfært: Texti um kæru Bjarnfreðs til MDE hefur verið uppfærður þar sem lesa mátti af fyrri texta að kæra hans hefði verið efnislega í takt við mál Styrmis Þórs og þremenninganna í Milestone-málinu. Svo var þó ekki.