Karlmaður var fyrir jól dæmdur í 18 mánaða fangelsi, þar af 15 mánuði skilorðsbundna, vegna gífurlegs magns barnaníðsefnis sem hann hafði haft í vörslum sínum. Var um að ræða Yfir hundrað þúsund ljósmyndir og meira en fimm þúsund myndskeið.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að maðurinn, Karl Hauksson, hafi verið handtekinn í júlí árið 2019. Hafði efnið uppgötvast fyrir tilviljun þegar sá sem tilkynnti um efnið var staddur á heimili mannsins. Fékkst í kjölfarið húsleitarheimild og var lagt hald á fartölvur, spjaldtölva, borðtölvur og mikið magn af hörðum diskum, ZIP-diskum og disklingum.
Maðurinn sagði strax í yfirheyrslu hjá lögreglu að hann kannaðist við að eiga efnið og að hafa sótt það og geymt. Kvað hann þetta hins vegar gamalt efni sem hann hafi byrjað að sækja á árunum 1990-1992. Hafi hann á þeim tíma verið haldinn barnagirnd og haft ánægju af því að skoða og safna efninu. Hann hafi svo misst áhugann og hætt að sækja efnið í kringum árið 1998.
Samtals var um að ræða 6.806 GB af efni, eða 244.301 ljósmyndir og 5.443 kvikmyndir. Var það síðar fært niður um 47 ljósmyndir eftir athugasemdir verjanda mannsins, en vafi lék á um hvort þar væri um að ræða „pósumyndir“ en ekki myndir sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt.
Eftir skoðun lögreglunnar var manninum kynnt magn og niðurstaða af því að hafa skoðað notendasögu gagnanna. Kom við þá skoðun meðal annars í ljós að hluti safnsins hefði orðið til og verið skoðaður árið 2018 eða síðar. Þrátt fyrir það sagðist maðurinn ekki hafa sótt nýtt efni í um áratug. Sagðist maðurinn hafa orðið háður því að skoða efnið á sínum tíma og að fíkn hans hefði líka náð til þess að safna því. Þá tók hann fram að hann hefði ætlað að farga hluta efnisins, en hluti þess fannst í ruslatunnu í tölvunni. Í dóminum er þó tekið fram að hins vegar væri hægt að kalla efnið fram á ný og því væri það áfram í vörslum hans.
Þá hafnaði dómurinn röksemdum mannsins að mikill hluti efnisins hefði verið sömu skrárnar afritaðar á marga diska og ættu því ekki að teljast sem margar skrár heldur ein. Sagði dómurinn að maðurinn bæri ábyrgð á fjölfölduninni.
Bæði í framburði lögreglu sem annaðist rannsókn málsins og samkvæmt orðum dómara sjálfs, sem skoðaði efni af handahófi, var um að ræða dæmi um „mjög gróft barnaníðsefni“
Um helmingur ljósmyndanna var í formi svokallaðra smámynda (e. Thumbnails). Var hann sýknaður af því að hafa haft þær myndir í sínum vörslum, en sakfelldur fyrir aðrar myndir og myndskeið, samtals 132.798 ljósmyndir og 5.435 kvikmyndir sem allar sýndu barnaníðsefni.
„Magn efnisins sýnir stjórnleysi,“ segir í dóminum og bætt er við að maðurinn hafi ekki innsæi í vanda sinn og hvernig best sé að bregðast við honum. Ásetningur hans hafi verið einbeittur að afla og viðhalda efninu og að augljóst sé að hann þurfi á aðstoð að halda til að bæla niður hvatir sínar. Hins vegar er tekið fram að hann hafi gengist við brotum sínum og ekki verið fundinn sekur áður. Brotin nái hins vegar yfir langt tímabil og teljist alvarleg brot.
Tekið er fram í dóminum að rannsókn og málsmeðferð hafi tekið langan tíma sem manninum verði ekki kennt um og því sé refsing mannsins skilorðsbundin að stórum hluta. Sem fyrr segir fékk hann 18 mánaða dóm, þar af 15 mánuði skilorðsbundna.