„Ég vil óska Íslendingum til hamingju með þetta“

Erla Bolladóttir.
Erla Bolladóttir. mbl.is/​Hari

Erla Bolladóttir var að vonum ánægð með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem felldi í morgun úr gildi úrskurð um að endurupptökubeiðni máls hennar skyldi hafnað. 

Erla var sakfelld í Hæstarétti árið 1980 fyrir að hafa borið svokallaða Klúbbsmenn röngum sökum í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Kjarni rökstuðnings Erlu hverfist um að hún hafi verið beitt þrýstingi af lögreglumönnum til þess að bera ljúgvitni gegn Klúbbsmönnum. 

„Ég vil bara óska Íslendingum til hamingju með þetta,“ segir Erla í samtali við mbl.is.

Erla Bolladóttir í dómssal á meðan meðferð málsins stóð á …
Erla Bolladóttir í dómssal á meðan meðferð málsins stóð á áttunda áratugnum. Morgunblaðið/Kristján Einarsson

Vandar ríkinu ekki kveðjurnar

Eftir niðurstöðu héraðsdóms í morgun mun Erla því geta farið fram á endurupptöku máls síns, að því gefni að ríkisvaldið áfrýji ekki niðurstöðunni til Landsréttar.

„Þetta er ekki fullnaðarsigur í þeirri merkingu að það er ekki búið að sýkna mig. En þetta er viðurkenning á því að það sé full þörf á að taka mitt mál upp að nýju.“

Spurð að því hvort hún sé vongóð um að nú verði Erla loks sýknuð í enduruppteknu máli, segir hún að það verði að teljast líklegt. Hún vandar þó ráðamönnum landsins ekki kveðjurnar og segir að það verði þrautinni þyngri fyrir þá að reyna að koma í veg fyrir að málið verði tekið upp að nýju. 

„Þegar ríkið á í hlut þá getur allt gerst, því miður,“ segir hún. 

Hún bætir við að væntanlega verði ekki leikur einn fyrir ríkisvaldið að stöðva endurupptöku. Erla segir einnig að aðeins sýkna geti orðið niðurstaðan ef málið verður tekið upp aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert