Ekki náð að „leggjast yfir“ kæruna

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var fámáll þegar mbl.is spurði hann út í stjórnsýslukæruna sem kom á hans borð í gær. Þar kæra félagasamtökin Frelsi og ábyrgð þá ákvörðun Lyfjastofnunar að veita bóluefninu Comirnaty markaðsleyfi hér á landi til nota fyrir börn á aldrinum 5-11 ára. 

„Ég ætla ekkert að tjá mig sérstaklega um það,“ sagði Willum um málið eftir ríkisstjórnarfund í dag.

„Ég hef ekkert náð að leggjast yfir þessa kæru en hún snýr að því að hlutverki Lyfjastofnunar að gefa leyfi. Ég þarf bara að skoða það, þetta er væntanlega til umræðu innan ráðuneytisins eða stofnunarinnar sjálfrar.“

Leyfi veitt á grundvelli vísindalegra rannsókna

Spurður um hvort hann hafi rætt málið við forstjóra Lyfjastofnunar sagði Willum að ekki hafi enn gefist kostur á því. 

Eins og fram kom í tilkynningu Lyfjastofnunar í gær bíður stofnunin nú átekta, en líklegast biður heilbrigðisráðherra stofnunina um að veita umsögn í málinu. 

Eftir að fréttir bárust af stjórnsýslukæru Frelsis og ábyrgðar, sem lögmaðurinn og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Arnar Þór Jónsson, fer fyrir, svaraði Lyfjastofnun fyrir sig með áðurnefndri fréttatilkynningu. 

„Grund­völl­ur og for­send­ur þess­ar­ar stjórn­sýslukæru eru til at­hug­un­ar hjá okk­ar sér­fræðing­um. En það er nauðsyn­legt að hafa í huga að þetta er stjórn­sýslukæra sem beint er til heil­brigðisráðherra. Meðferð og úr­lausn máls­ins er fyrst og fremst á for­ræði heil­brigðisráðuneyt­is­ins. Lyfja­stofn­un ein­beit­ir sér áfram að sín­um kjarna­hlut­verk­um, m.a. að fylgj­ast með ör­yggi lyfja og bólu­efna sem verið er að nota í heil­brigðis­kerf­inu okk­ar í bar­átt­unni við heims­far­ald­ur­inn,“ er haft eft­ir Rúnu Hauks­dótt­ur Hvann­berg, for­stjóra Lyfja­stofn­un­ar, í til­kynn­ing­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert