Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var fámáll þegar mbl.is spurði hann út í stjórnsýslukæruna sem kom á hans borð í gær. Þar kæra félagasamtökin Frelsi og ábyrgð þá ákvörðun Lyfjastofnunar að veita bóluefninu Comirnaty markaðsleyfi hér á landi til nota fyrir börn á aldrinum 5-11 ára.
„Ég ætla ekkert að tjá mig sérstaklega um það,“ sagði Willum um málið eftir ríkisstjórnarfund í dag.
„Ég hef ekkert náð að leggjast yfir þessa kæru en hún snýr að því að hlutverki Lyfjastofnunar að gefa leyfi. Ég þarf bara að skoða það, þetta er væntanlega til umræðu innan ráðuneytisins eða stofnunarinnar sjálfrar.“
Spurður um hvort hann hafi rætt málið við forstjóra Lyfjastofnunar sagði Willum að ekki hafi enn gefist kostur á því.
Eins og fram kom í tilkynningu Lyfjastofnunar í gær bíður stofnunin nú átekta, en líklegast biður heilbrigðisráðherra stofnunina um að veita umsögn í málinu.
Eftir að fréttir bárust af stjórnsýslukæru Frelsis og ábyrgðar, sem lögmaðurinn og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Arnar Þór Jónsson, fer fyrir, svaraði Lyfjastofnun fyrir sig með áðurnefndri fréttatilkynningu.
„Grundvöllur og forsendur þessarar stjórnsýslukæru eru til athugunar hjá okkar sérfræðingum. En það er nauðsynlegt að hafa í huga að þetta er stjórnsýslukæra sem beint er til heilbrigðisráðherra. Meðferð og úrlausn málsins er fyrst og fremst á forræði heilbrigðisráðuneytisins. Lyfjastofnun einbeitir sér áfram að sínum kjarnahlutverkum, m.a. að fylgjast með öryggi lyfja og bóluefna sem verið er að nota í heilbrigðiskerfinu okkar í baráttunni við heimsfaraldurinn,“ er haft eftir Rúnu Hauksdóttur Hvannberg, forstjóra Lyfjastofnunar, í tilkynningunni.