„Gríðarlegur áfangasigur fyrir Erlu“

Erla Bolladóttir vann áfangasigur í héraðsdómi í morgun.
Erla Bolladóttir vann áfangasigur í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í morgun féll í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur þar sem úrskurður endurupptökunefndar um að hafna upptöku máls Erlu Bolladóttur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, var felldur úr gildi. Þar með getur Erla farið fram á endurupptöku málsins fyrir endurupptökudómi að því gefnu að ríkisvaldið áfrýi málinu ekki til Landsréttar.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu, sagði í samtali við mbl.is eftir að dómurinn féll: „Þetta er gríðarlegur áfangasigur fyrir Erlu. Hún hefur barist í þessu máli hetjulega undanfarna áratugi.“ Bendir hann á að nú sé búið að flytja málið ítarlega í héraðsdómi og leiða fyrir vitni og við það hafi afstaðan breyst og niðurstaðan sú að Erla hafi ekki gerst sek um rangar sakargiftir, sem var það sem hún var dæmd fyrir á sínum tíma.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu Bolladóttur.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu Bolladóttur. mbl.is/Hari

Ragnar segir að í sjálfu sér geti ríkið áfrýjað dóminum til Landsréttar. Ef það sé ekki gert geti Erla lagt málið fyrir endurupptökudóm. „Ég tel hins vegar rétt að ríkisstjórnin ætti að ljúka öllum þessum málum sem nefnd eru Guðmundar- og Geirfinnsmál og hætta að berjast við fólk. Það ætti að ljúka þessu með samkomulagi sem fæli mögulega í sér bótagreiðslu,“ segir Ragnar, en í lok síðasta árs var íslenska ríkið dæmt til að greiða Guðjóni Skarp­héðins­syni og dán­ar­búi Kristjáns Viðars Júlí­us­son­ar, tveim­ur af sak­born­ing­um í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­um, sam­tals 610 millj­ón­ir. Hins vegar var bótakröfu Tryggva Rún­ars Leifs­son­ar vísað frá dómi.

Ragnar segir að ef ekkert komi frá ríkisstjórninni og ef málinu verður ekki áfrýjað sé skýrt að Erla muni fara fram á endurupptöku fyrir endurupptökudómi. Ef endurupptaka væri heimiluð færi málið svo beint fyrir Hæstarétt í formi sýknukröfu að hans sögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert