Hagkvæmnisjónarmið réðu ekki för í ákvörðun um fyrirkomulag á bólusetningum barna á aldrinum 5-11 ára gegn Covid-19 á höfuðborgarsvæðinu, sem stefnt er að því að framkvæma í skólum. Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, innt viðbragða við ummælum sem Salvör Nordal lét falla um fyrirkomulagið í samtali við mbl.is í gær.
Ákvörðunin um að bólusetja börn í skólum hafi verið tekin að vel ígrunduðu máli og sú útfærsla talin sú besta í stöðunni, samhliða því að skólarnir yrðu felldir niður á meðan, að sögn Ragnheiðar. Útfærslan sé þó samt sem áður sú flóknasta.
„Þetta er svo miklu, miklu flóknara heldur en við hefðum gert þetta á heilsugæslunum eða í höllinni þar sem við erum vön að gera þetta.“
Spurð hvort það hafi yfir höfuð komið til greina að bólusetja ofangreindan aldurshóp á heilsugæslustöðvunum svarar Ragnheiður neitandi.
„Á heilsugæslustöðvunum verðum við að forgangsraða veiku fólki og að halda uppi almennri heilbrigðisþjónustu. Fyrir utan það að húsnæði stöðvanna henta engan veginn undir bólusetningu svona margra, þá yrðum við líklegast að bólusetja langt fram á vor ef bólusetningarnar færu fram þar. Sóttvarnalæknir vill að þetta sé klárað fljótt og vel svo það myndi bara ekki ganga, ekki hjá okkur á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru svona mörg börn.“
Hún segir þó vel hægt að bólusetja á heilsugæslustöðvum í minni sveitarfélögum, þar sem færri börn búi.
„Ég veit til þess að börn verða bólusett á heilsugæslustöðvunum á minnstu stöðunum. Þegar þú ert bara með örfáa krakka þá er það bara græjað,“ segir hún.
Þrátt fyrir að bólusetningar barna á höfuðborgarsvæðinu fari fram í skólum megi búast við því að starfsemi heilsugæslunnar verði í algeru lágmarki á meðan enda verði bólusetningarnar vel mannaðar af hjúkrunarfræðingum og læknum.
„Það er samt bara í þessa einu viku sem er betra en að lama starfsemina í margar vikur“.
Varðandi persónusjónarmiðin segir Ragnheiður að fólk verði að sýna hvert öðru umburðarlyndi enda séum við öll mismunandi. Það séu margar ástæður fyrir því að foreldrar þiggi ekki bólusetningar fyrir börn sín.
„Í fyrsta lagi er mjög stór hópur barna sem hefur nú þegar fengið Covid og þá er ekki ætlast til þess að þau komi í bólusetningu. Í öðru lagi er hópur foreldra sem vill kannski bíða og sjá til og í þriðja lagi er hópur sem vill einfaldlega bara hafna bólusetningunni.
Ég held að við fullorðna fólkið verðum svolítið að normalisera þessar ástæður og taka tillit til afstöðu fólks svo það myndist ekki þessi múgæsingur í aðra hvora áttina hvað varðar bólusetningar barna.“
Þá gefur Ragnheiður lítið fyrir áhyggjur Salvarar yfir því að skólinn sé mögulega ekki besti staðurinn til að hlúa að börnum skyldu þau verða hrædd eða að það líði yfir þau í bólusetningunni og að þau vilji ekki vera í þeirri stöðu gagnvart öðrum börnum.
„Foreldrarnir eru náttúrulega hafðir með til að tryggja að börnin hafi góða stuðningsaðila sér við hlið. Þeir geta þá líka vaktað börnin á eftir og brugðist við ef eitthvað kemur upp á. Bólusetning barna á aldrinum 12-15 ára gekk alveg ótrúlega vel og þær fóru fram í stórum sal. Þar var engin viðkvæmni.
Svo er yngri hópurinn síður gjarn á að falla í yfirlið við bólusetningar. Ég hef mestar áhyggjur af því að það komi upp grátur í þeim hópi, sem getur auðveldlega gerst. Þá vill maður geta bólusett afsíðis eða alla vega ekki fyrir framan önnur börn og þess vegna urðu skólarnir líka fyrir valinu.“
Áréttar Ragnheiður einnig að fjöldabólusetningar barna í skólum séu ekki nýjar af nálinni enda hafi áður verið ráðist í slíkar aðgerðir hér á landi.
„Fyrir nokkrum árum síðan bólusettum við alla skóla á einu bretti fyrir heilahimnubólgu. Þá var þessi sama umræða ekki uppi. Það þótti bara eðlilegt að bólusetja heilu skólana, alla í einu og það gekk ótrúlega vel. Það er svolítið fordæmið sem við erum að fara eftir núna.“
Þótt aðeins vika sé til stefnu segir Ragnheiður fyrirkomulag bólusetninga barna ekki vera meitlaðar í stein og að vilji sé til þess að endurskoða það, geti einhver boðið betri kost en húsnæði skólanna.
„Ef einhver getur komið með hina fullkomnu lausn á þessu eða einhverjir sem eiga hentug húsnæði í öllum hverfum, alls staðar, sem eru til í að bjóða þau fram í þetta þá væri það vel þegið. Við höfum bara ekki fengið nein slík boð enn þá. En eins og ég segi þá er þetta flóknasta framkvæmd sem við höfum ráðist í frá upphafi faraldursins og erum við að leggja allt í sölurnar, einmitt fyrir börnin.“