Í úrvinnslusóttkví á fyrsta skóladegi ársins

Sunnulækjarskóli á Selfossi.
Sunnulækjarskóli á Selfossi. Ljósmynd/Árborg

Tæpir tveir klukkutímar voru liðnir af fyrsta skóladegi ársins þegar 10. bekkur í Sunnulækjarskóla á Selfossi var sendur heim vegna mögulegs smits hjá nemanda í árgangnum. Frá þessu er greint í tölvupósti sem skólastjórnendur sendu foreldrum barnanna í árgangnum í morgun.

Nemandi fékk jákvæða niðurstöðu á heimaprófi

„Kæru foreldrar nemenda í 10 bekk, nú fyrir stuttu kom í ljós að einn nemandi í 10 bekk gæti verið smitaður af Covid. Nemandinn mætti til skóla í morgun en fór síðan slappur heim um kl. 9 og tók þá heimapróf. Heimaprófið reyndist jákvætt og því var pöntuð sýnataka og PCR-próf fyrir nemandann strax í kjölfarið.

Þar sem niðurstaða þess mun líklega ekki liggja fyrir fyrr en seint í nótt eða á morgun höfum við ákveðið að 10. bekkur fari í úrvinnslusóttkví í dag og á morgun meðan málið skýrist. Eiginleg smitrakning hefur ekki farið fram en í ljósi þess að umsjónarhópar innan árgangsins blönduðust í morgun teljum við öruggara að hafa þennan háttinn á,“ segir í tölvupóstinum.

Guðmundur Karl Sigurdórsson, faðir barns í 10. bekk í Sunnulækjarskóla, greindi frá málinu í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter í dag og sagði þetta hljóta að vera met.

Inntur viðbragða segir Guðmundur það hafa verið viðbúið að smit kæmi upp þegar skólinn opnaði að nýju eftir jólafrí en að það hafi kannski gerst dálítið fyrr en fólk hafði búist við.

„Þetta kallar maður að byrja árið með stæl“

Feðginin Aþena Ugla Magnúsardóttir og Magnús Sigurjón Guðmundsson.
Feðginin Aþena Ugla Magnúsardóttir og Magnús Sigurjón Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Magnús Sigurjón Guðmundsson tísti einnig um málið í dag en hann er faðir tveggja barna í Sunnulækjarskóla, þ.á.m. Aþenu Uglu Magnúsardóttur, nemanda í 10. bekk. Í færslunni segir hann: „Skólastarf hófst klukkan 08:10. Unglingurinn kom heim klukkan 09:52. Þetta kallar maður að byrja árið með stæl“.

Líkt og Guðmundur segir Magnús það hafa komið sér og konu sinni á óvart hve hratt þetta bar að, inntur eftir því.

„Við gerðum okkur alveg grein fyrir því að næstu vikur gætu orðið eitthvað skrítnar en ekki að þetta gæti gerst innan við tveimur tímum eftir að hún fór aftur í skólann. En hún var kampakát að sleppa við skólasund,“ segir hann og vísar þar í dóttur sína Aþenu.

Hefði verið betra að fresta byrjun skólanna til 10. janúar?

„Hefðiru spurt mig í gær hefði ég reynt að vera rosalega þroskaður og sagt að það séu tvær hliðar á þessum pening en svo sér maður bara hversu fljótt þetta gerist. Svo leyfi ég mér líka að efast um það að Sunnulækjarskóli sé eini skólinn sem er að lenda í einhverskonar bobba. Þá hlýtur maður að spyrja sig hvort það hefði verið farsælla að bíða eitthvað aðeins lengur og fara þannig eftir mati sóttvarnalæknis“.

Frá hægri: Aþena Ugla Magnúsardóttir, Jenny Hildur Jónsdóttir, Gabríel Úlfur …
Frá hægri: Aþena Ugla Magnúsardóttir, Jenny Hildur Jónsdóttir, Gabríel Úlfur Magnúsarson og Magnús Sigurjón Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Íhuga að halda börnum sínum heima lengur

Spurður segist Magnús hafa rætt það við konu sína, Jenny Hildi Jónsdóttur, að halda börnunum heima lengur þar sem fjölskyldan væri að stefna að því að fara saman til útlanda um miðjan mánuð.

„Ég keypti nefnilega miða til Danmerkur fyrir okkur öll löngu áður en yfirstandandi bylgja skall á. Við erum að reyna stíga varlega til jarðar en á sama tíma viljum við að börnin fái sína félagslegu örvun og geti sinnt sínu námi.

Eins og staðan er núna hlýtur maður samt að spyrja sig hvort það sé ekki betra að bíða með að senda þau aftur í skólann. Það voru margir foreldrar sem ræddu það í morgun hvort það væri ekki bara sniðugt að gefa krökkunum smá breik út þessa viku, þeir sem geta það allavega. Bíða og sjá hvernig þessu vindur fram.“

Þá segir Magnús einhverja hafa misskilið Twitter-færsluna hans um málið og haldið að hann væri með skrifunum að setja út á ákvörðun skólastjórnenda. Það hafi síður en svo verið ætlunin, að sögn hans.

„Ég vil að það komi fram að mér finnst skólinn hafa staðið sig ótrúlega vel og skólastjórnendur er að reyna sitt besta í að tryggja öryggi nemenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert