Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú bruna sem varð í sumarbústað við Elliðavatn í nótt. Ekki liggur fyrir hvort um íkveikju hafi verið að ræða, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar og slökkviliðsins.
Slökkviliðinu barst tilkynning um eldinn upp úr klukkan fimm í nótt en þegar það mætti á vettvang var bústaðurinn orðinn alelda og því lítið hægt aðhafast. Dagvakt slökkviliðsins tók svo við í dag og var hún ný farin af vettvangi þegar mbl.is náði tali af varðstjóra slökkviliðsins.
„Það rýkur smá upp úr þessu svo þeir ætla bara að skilja þetta eftir. Það er smá hiti í þessu en þetta er bara að kólna.“
Þá segir hann málið hafa verið fært í hendur lögreglu en að brúnarústirnar þurfi sinn tíma til að kólna nægilega mikið svo hægt sé að hrófla við þeim.
Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir að málið sé nú í höndum lögreglu og að rannsókn á brunanum sé á frumstigi.
„Þetta er allt bara á byrjunarreit ennþá. Tæknideildin hjá okkur fóru um hádegisbilið í dag til að kíkja betur á aðstæður. Mér skilst að bústaðurinn hafi brunnið alveg niður og þá þarf svolítið að gramsa eftir einhverju sem gæti bent til þess hvað hafi skeð.
Þá segir hann mögulega þurfa að kalla til fleiri aðila utan lögreglunnar til aðstoðar við rannsóknina.
„Það gætu verið einhverjir sem tengjast rafmagni og öðru slíku. Svo hafa embætti á borð við Mannvirkjastofnun einnig verið að koma að svona rannsóknum. Þannig það er í mörg horn að líta.“
Spurður segir hann allan gang á því hve langan tíma rannsóknir af þessu tagi taka og að ekki liggi fyrir hvort um íkveikju hafi verið að ræða.
„Það er oft erfitt að eiga við svona mál og það verður bara að skoða það sem hægt er að skoða. Það liggur ekkert fyrir um upptök eldsins ennþá.“