Alls eru bókaðar 194 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna árið 2022 og með þeim koma um 219 þúsund farþegar. Bókunarstaðan, líkt og fyrri ár, byggir á væntingum skipafélaganna en sem kunnugt er féllu mjög margar skipakomur niður síðustu tvö sumur vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Þannig voru bókaðar 198 komur farþegaskipa í upphafi árs 2021 með 217 þúsund farþega. Þegar upp var staðið voru skipakomur aðeins 68 og farþegar 18.950 talsins. Risaskipin létu ekki sjá sig í fyrra en nú eru bókaðar komur nokkurra skipa sem eru stærri en 100 þúsund brúttótonn. Stæsta skipið sem nú er bókað er Sky Princess, 145.281 brúttótonn. Skipið tekur 3.560 farþega og í áhöfn eru 1.346 manns.
Faxaflóahafnir hafa birt dagatal farþega/skemmtiferðaskipa þessa árs. Samkvæmt því verða tvær skipakomur í mars, þrjár skipakomur í apríl en síðan hefjast siglingar af alvöru í byrjun maí, ef allar áætlanir standast. Síðasta koma farþegaskips er áætluð í október.
Farþegaskipti munu aukast árið 2022, ef allar bókanir ganga eftir. Áætlað er að af þessum 194 skipakomum, verði 98 komur með 51.022 farþega í farþegaskiptum sem er talsverð aukning frá fyrri árum. Mörg skipanna eru svokölluð leiðangursskip, sem sigla hringinn í kringum landið. Farþegarnir komu til landsins með flugi og farþegaskiptin verða í Reykjavík.
Farþegaskiptin kalla á bætta aðstöðu hjá Faxaflóahöfnum í Sundahöfn. Með vorinu verður sett upp bráðabirgðaaðstaða með viðeigandi tækjabúnaði við Skarfabakka til að allt gangi snuðrulaust fyrir sig. Útboð á málmleitarhliðum og farangursskönnum fór fram fyrr á þessu ári og ætti niðurstaða að liggja fyrir undir lok mánaðarins. Nauðsynlegt er að bæta aðstöðuna verulega, því afgreiða þarf allt að 3.000 farþega í einu og skanna farangur þeirra.
Haustið 2022 verður síðan farið að huga að næstu skrefum varðandi framtíðarhúsnæði fyrir farþega og búnað við Skarfabakka, segir í frétt Faxaflóahafna.