Tæp 15% almennra lækna íhuga nær daglega að hætta á Landspítala. Um 17% til viðbótar íhuga það vikulega og tæplega 15% íhuga í hverjum mánuði að segja upp. Þetta þýðir að tæplega helmingur almennra lækna á spítalanum, eða 45% þeirra, íhugar að minnsta kosti einu sinni í mánuði að hætta þar störfum.
Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Læknablaðsins þar sem farið er yfir niðurstöður könnunar Berglindar Bergmann, fyrrverandi formanns Félags almennra lækna, en hún situr nú í stjórn félagsins.
Segir þar að 43,5% almennra lækna á Landspítala hafi oft eða mjög oft upplifað einkenni kulnunar síðustu tólf mánuði, og að 25% lækna séu frekar eða mjög sammála því að hafa íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi.
„Rúm 11% læknanna eru svo mjög sammála að hafa íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi vegna kulnunareinkenna og/eða örmögnunar á síðastliðnum 12 mánuðum, og um 14% eru frekar sammála þeirri staðhæfingu. Samtals eru 45 læknar í þessari stöðu,“ er haft eftir Berglindi í blaðinu.
Hún bendir á, eins og frá var greint að ofan, að fjöldi lækna íhugi að hætta störfum.
„Tæp 15% læknanna íhuguðu nær daglega að hætta á Landspítala, 17% hafa íhugað það vikulega og tæp 15% einu sinni í mánuði. Þetta þýðir að tæplega helmingurinn, eða 45%, hefur íhugað í það minnsta einu sinni í mánuði að hætta. Það væri slæmt fyrir Landspítala að missa þetta fólk,“ segir Berglind.
Niðurstöðurnar eru byggðar á svörum rúmlega 180 almennra lækna. 65% þeirra starfa nú á Landspítala, 15% á heilsugæslu og 12% eru komin í sérnám erlendis. Berglind segir að tilefni könnunarinnar hafi verið orð þáverandi heilbrigðisráðherra um að neikvæð umræða um spítalann hefði fælandi áhrif á ungt og heilbrigðismenntað fólk frá Landspítala.