Tveimur mínútum eftir að opnað var fyrir skráningu var orðið fullskipað á landvarðanámskeið. Áhugasamir skrá sig á netinu og svo virðist sem margir hafi beðið við tölvuna kl. 10 þegar skráning hófst. Alls eru að þessu sinni teknir inn 36 nemendur og fullbókað var kl. 10:02. „Þetta er met, í fyrra fylltist námskeiðið á helmingi lengri tíma eða fjórum mínútum,“ segir Kristín Ósk Jónasdóttir hjá Umhverfisstofnun.
Á annað hundrað landverðir eru ráðnir til starfa á hverju ári. Þeim fjölgar og þar ræður mikil fjölgun ferðamanna á síðustu árum. Einnig hefur heilsársstörfum verið bætt við. Þeir sem ráða landverði til starfa eru þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarður og Umhverfisstofnun fyrir þjóðgarðinn Snæfellsjökul og fjölda friðlýstra svæða víða um land.