Róbert Marshall lét af störfum sínum sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar nú um áramót. Hann segir í samtali við mbl.is að hann muni nú snúa sér að leiðsögn fyrir Ferðafélag Íslands, en áhugi Róberts á útivist er vel þekktur.
Róbert var ráðinn tímabundið til starfa fyrir forsætisráðuneytið sem upplýsingafulltrúi árið 2020. Í fyrra fékk hann launalaust leyfi frá vinnu til þess að reyna fyrir sér í prófkjöri VG í Suðurkjördæmi en þar hlaut hann ekki brautargengi.
Róbert er fyrrverandi alþingismaður fyrir Samfylkinguna og síðar Bjarta framtíð en hann hefur starfað við fjallaleiðsögn, þjálfun og útivist undanfarin ár. Hann var formaður ungra alþýðubandalagsmanna á yngri árum. Á þingi gegndi hann m.a. þingflokksformennsku, formennsku í allsherjarnefnd, formennsku í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og sat í umhverfis- og samgöngunefnd, Þingvallanefnd og Norðurlandaráði.
Hann starfaði við fjölmiðla um árabil og var aðstoðarmaður samgönguráðherra áður en hann settist á þing árið 2009. Róbert er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og var um tíma forstöðumaður fréttasviðs 365.