Flestir Íslendingar þekkja söguna af síðustu aftökunni á Íslandi enda hefur sagan af Natani, Agnesi, Friðriki og Sigríði verið sett fram á ýmsa vegu í gegnum tíðina. Þórunn Jarla Valdimarsdóttir sendi frá sér bókina Bærinn brennur: Síðasta aftakan á Íslandi í haust og var sú bók valin fræðibók ársins af menningarblaðamönnum Morgunblaðsins.
Í verkinu dregur Þórunn upp mynd sem er að ýmsu leyti ólík þeirri sem fram hefur komið annars staðar, rómantíkin sem hefur einkennt þessa sögu víkur fyrir heimildarvinnu sem leiðir ýmislegt í ljós. Sýslumaðurinn Björn Blöndal réttaði tuttugu sinnum vegna málsins og eru til heimildir um það sem kom fram við yfirheyrslurnar. Þær hefur Þórunn kafað í.
Svo virðist sem græðgin hafi tekið völdin þegar fimm konur, þar á meðal Agnes og Sigríður vinnukonur Natans Ketilssonar, eggjuðu unglingsstrákinn Friðrik til að verða Natani að bana.
Þórunn leggur áherslu á sálfræðina sem liggur að baki þessu grimmdarverki. Mikið af þessu fólki hafði átt bágt í æsku og segir hún það geta skýrt hvers vegna illskan óx innra með því.
„Lífið getur verið hundaskóli. Lengi býr að fyrstu gerð. Það á líka við um þetta,“ segir hún.
„Samfélagið og samspilið í þessari sögu er mjög flókið en hver og ein manneskja, hvert og eitt dýr, við erum einföld. Við þurfum ást og kærleika og gott atlæti. Það er mjög auðvelt að eyðileggja mannveru með því að fara illa með hana litla.“
Þórunn var gestur í Dagmálum, frétta- og dægurmálaþætti Morgunblaðsins sem aðgengilegur er á mbl.is. Þar sagði hún frá tilurð bókarinnar, því sem hún komst að við rannsóknirnar og hvernig það fer saman að vera bæði sagnfræðingur og rithöfundur í senn.