„Sjónarmið barna eru okkur ofarlega í huga“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, vildi ekki mikið tjá …
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, vildi ekki mikið tjá sig um málið. mbl.is/Árni Sæberg

Hagsmunir barna varðandi bólusetningu barna á aldrinum fimm til ellefu ára eru Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, ofarlega í huga. Þetta segir hann að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. 

„Alveg sama hvort það sé í þessu eða öðru þá er það þannig að við erum að vinna út frá því. Til að mynda er það ástæða þess að við leggjum áherslu á að skólar haldi opnu og að við séum hér með eins virkt samfélag fyrir börn eins og við mögulega getum. Þannig að sjálfsögðu í þessu eins og öðru eru sjónarmið barna eru okkur ofarlega í huga.“

Hafa lagt sín sjónarmið fram

Þor­steinn Sæ­berg, formaður skóla­stjóra­fé­lags­ins, og Sal­vör Nor­dal, umboðsmaður barna, hafa kallað eftir því að bólusetningarnar fari ekki innan veggja skólanna.

Ásmundur vísaði til heilbrigðisyfirvalda þegar blaðamaður spurði hvort væri verið að skoða aðra staði fyrir bólusetninguna en tók fram að ráðuneytið væri með fulltrúa í undirbúningshóp og hafi lagt sín sjónarmið fram þar. 

„Heilbrigðisyfirvöld halda á bólusetningum almennt og er þetta til skoðunar hjá þeim. Við erum með fulltrúa í undirbúningshópi þarna og ég hef skilið það þannig að það er ekki komin endanleg lending í málið. Þar til að það kemur þá held ég að það sé betra að segja minna en meira.“

Tjáir sig um niðurstöðuna þegar hún kemur

Sal­vör sagði í sam­tali við mbl.is í gær að mik­il­vægt væri að hag­kvæm­is­rök væru ekki í fyr­ir­rúmi held­ur hags­mun­ir barn­anna þegar kæmi að fram­kvæmd­ bólusetninganna. 

Ásmundur vildi ekki svara spurningu blaðamanns um hvort hagkvæmnissjónarmið væru frekar að ráða för en hagsmunir barna. „Ég held að það sé betra að tjá sig um niðurstöðuna þegar hún kemur og eins og hún verður þegar hún kemur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert