Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að bólusetning barna geti hafist í næstu viku eins og gert var ráð fyrir, þrátt fyrir skiptar skoðanir um hvernig verði staðið að framkvæmd hennar.
Óánægju hefur gætt með áform um að bólusetja börn á aldrinum 5-11 ára í skólum landsins og hefur umboðsmaður barna meðal annars sagt að slíkt sé ekki æskilegt.
„Það einfaldar þetta að gera þetta í skólunum en við þekkjum að fara með börnin okkar í bólusetningu á heilsugæslunni, okkur líður vel með það. Það kann að vera að menn finni leiðir sem henta og ég voni að starfshópurinn komi með lausn á þessu í dag og að heilsugæslan taki svolítið frumkvæðið og segi hvað sé hægt að gera og hvernig megi vanda sig sem mest við þetta,“ sagði Willum við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að seinlegt yrði að boða öll börn í aldursflokknum, sem eru um 30 þúsund talsins, á heilsugæslu í bólusetningu. Best væri ef börn yrðu bólusett í skólum.
„Hér á höfuðborgarsvæðinu eru 75 grunnskólar sem við gátum þá dreift okkur í, haft miklu færri hópa, færri börn í einu og haft minni og fleiri rými til að dreifa okkur í,“ segir Ragnheiður.
Heilbrigðisráðherra gerir ráð fyrir að fá niðurstöður starfshóps um málið í hendurnar í dag, þar sem fram kemur hvernig best yrði staðið að bólusetningu 5-11 ára barna. Þann starfshóp segir ráðherra að aðilar úr menntamálaráðuneytinu, úr menntakerfinu og frá heilsugæslunni skipa.
„Það er starfshópur að störfum með þessum aðilum meðal annars og fólki úr menntamálaráðuneytinu. Heilsugæslan hefur þetta verkefni á sínum höndum og við þurfum bara að bíða hvað kemur frá þessum hópnum um endanlega útfærslu á þessu.“