Endurupptökudómur hefur fallist á beiðni Styrmis Þórs Bragasonar, fyrrverandi forstjóra MP banka, um endurupptöku í svokölluðu Exeter-máli. Þar hafði héraðsdómur sýknað Styrmi, en Hæstiréttur snúið dóminum og sakfellt hann. Hlaut Styrmir eins árs dóm í málinu.
Upphaflega var Styrmir sýknaður í héraði í málinu. Í Hæstarétti var hlutdeild hans vísað aftur í hérað, en þeir Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, og Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, hlutu hins vegar fjögurra og hálfs árs dóma í málinu. Aftur var Styrmir sýknaður í héraði en Hæstiréttur sneri dóminum hins vegar við eins og fyrr segir. Í málinu var Styrmir sakaður um að hafa ásamt þeim Jóni og Ragnari lagt á ráðin um að fé yrði greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs til að fjármagna kaup einkahlutafélagsins Tæknisetursins Arkea (sem síðar varð Exeter Holding) á stofnfjárbréfum í október 2008, en viðskiptin voru fjármögnuð með 800 milljóna yfirdráttarláni Byrs og 44 milljóna fjármögnun frá MP banka.
Styrmir fór með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu þar sem hann taldi að brotið hefði verið á rétti sínum um réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Kæra Styrmis til MDE var fyrst og fremst byggð á því að Hæstiréttur hafi neitað honum um málsmeðferð. Styrmir sagði Hæstarétt hafa komist að sinni niðurstöðu um fangelsisdóm með því að endurmeta vitnisburð vitna í héraðsdómi, en vitnin komu ekki fyrir Hæstarétt. Þar með hafi verið brotið á reglunni um milliliðalausa málsferð. Styrmir vann málið í Strassburg. Hann fékk hins vegar engar bætur greiddar nema málskostnað.
Einu og hálfu ári síðar var fimm öðrum málum fyrir Mannréttindadómstólnum vísað frá eftir að íslenska ríkið og deiluaðilar luku málum með sáttargerð þar sem ríkið viðurkenndi að brotið hefði verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. Var þar meðal annars um að ræða þremenninga sem höfðu verið dæmd í Milestone-málinu, en endurupptökudómstóllinn heimilaði endurupptöku þremenninganna samhliða úrskurði sínum í máli Styrmis.
Eftir að Styrmir vann málið fyrir MDE var haft eftir lögmanni hans, Ragnari Hall, að Styrmir væri búinn að afplána refsidóm og að hann teldi Styrmi eiga rétt á bótakröfu og að líklegt sé að hann muni leita réttar síns. Þá líkti Ragnar málinu við Vegas-málið svonefnda, en þar var aðili var dæmdur saklaus í héraðsdómi, sakfelldur í Hæstarétti, fékk dóm í MDE um að málsmeðferðin hefði ekki verið réttlát þar, fékk málið svo endurupptekið á Íslandi og var að endingu sýknaður í Hæstarétti.
Í úrskurði endurupptökudóms kemur fram að brot á reglunni um milliliðalausa málsmeðferð feli í sér verulegan galla á meðferð máls og með vísan í niðurstöðu MDE í máli Styrmis hafi „verulegur galli hafi verið á meðferð máls endurupptökubeiðanda [Styrmis] fyrir Hæstarétti.“ Er því fallist á beiðni Styrmis um endurupptöku málsins.