Undirheimarnir opnuðust

Sagan af morðinu á Natani Ketilssyni árið 1828 og aftökunum sem fylgdu í kjölfarið er til í ótal útgáfum en nú fyrst hefur komið út bók sem byggir á málsskjölunum sjálfum sem sýslumaðurinn Björn Blöndal tók saman. Það er bókin Bærinn brennur: Síðasta aftakan á Íslandi eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur.

„Dómabókin hans Björns Blöndal er líklega einstök heimild, alla vega á Íslandi og kannski víðar. Hann hélt svo mörg þing. Hann yfirheyrði alla. Það opnuðust undirheimar Húnavatnssýslu,“ segir Þórunn í viðtali í Dagmálum.

„Mín niðurstaða var sú að kannski var fullt af svona ljótum hlutum að gerast í sýslum, af því það hafði orðið siðrof.“

Þórunn hefur mikið fengist við rannsóknir á sagnfræði átjándu og nítjándu aldar á Íslandi. Hún segist hafa verið alla ævi að reyna að skilja þennan tíma en nú sé hún orðin „löglegt gamalmenni“, 67 ára.

„Það tekur heila ævi eiginlega að fá skilning á heildasögu, hversdagssögu, samfélag. Og það er algjör synd, eins og í öðru, þegar fólk er loksins að fatta hlutina þá þarf það að fara í ruslið.“

Sagnfræðingurinn og rithöfundurinn var gestur í Dagmálum og sagði frá störfum sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert