Afhentu Listasafni Íslands glæsilegt einkasafn

Frá afhendingu safnsins í dag.
Frá afhendingu safnsins í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Listaverkasjóður Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur afhenti í dag Listasafni Íslands listaverkasafn hjónanna til framtíðarvörslu. Safnið var stærsta einkasafn á verkum Jóhannesar S. Kjarvals í einkaeigu.

Þorvaldur Guðmundsson var gjarnan kenndur við Síld og fisk en sjóðurinn var stofnaður af ekkju hans Ingibjörgu Guðmundsdóttur og börnum þeirra Geirlaugu, Skúla og Katrínu um síðustu áramót.

Til vörslu á listasafni þjóðarinnar 

„Það er þýðingarmikið að fá þetta stóra og glæsilega listasafn til vörslu á listasafni þjóðarinnar,“ er haft eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningarmálaráðherra í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Þar segir einnig að safnið sé einstakt og að Þorvaldur hafi verið ástríðufullur safnari sem hafi kynnst öllum listamönnum sem störfuðu á hans tíma.

Katrín Þorvaldsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra.
Katrín Þorvaldsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Stærsta einkasafn Kjarvalsverka

„Fjöldi verka listaverkasafnsins er um 1400 talsins, meðal annars málverk, teikningar, grafík, skúlptúrar og lágmyndir og skipar landslagsmálverkið verðugan sess í safninu með einstökum verkum frumherja íslenskrar myndlistar s.s. Ásgríms Jónssonar, Jóhannesar Kjarval, Jóns Stefánssonar, Kristínar Jónsdóttur og Gunnlaugs Scheving svo dæmi séu tekin.“

Þar kemur einnig fram að hjónin hafi átt stærsta einkasafnið á verkum Kjarvals eða um 400 verk.

„Listasafn Íslands mun á næstu misserum skrá þetta einstaka sérsafn og gera það aðgengilegt til sýninga og með stafrænum hætti. Stefnt er að stórri bókaútgáfu innan fárra ára um það merka og myndarlega framlag til íslenskrar listasögu sem þau hjónin Ingibjörg og Þorvaldur stóðu að,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert