Barn ekki bólusett ef forsjáraðilar eru ósammála

Nú þegar hafa um 250 börn á aldrinum 5 til …
Nú þegar hafa um 250 börn á aldrinum 5 til 11 ára verið bólusett. AFP

Bólusetningar barna á aldrinum 5 til 11 ára hófust hér á landi á milli jóla og nýárs og nú þegar hafa 250 börn fengið fyrsta skammtinn af bóluefni gegn Covid-19. Meginátákið í bólusetningu barna á þessum aldri verður þó í næstu viku þegar nógu mikið af bóluefni verður komið til landsins til að hægt sé að bjóða öllum bólusetningu. Þetta segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir hjá sóttvarnalækni, en þetta kom fram á fundi almannavarna í morgun.

„Meginátakið verður skipulagt af heilsugæslunni á hverjum stað og fer fram ýmist í húsnæði heilsugæslunnar eða lánshúsnæði og sumstaðar verður það sennilega húsnæði grunnskólanna en það verður gefið út á hverju svæði hvernig fyrirkomulagið verður,“ segir Kamilla.

Skiptar skoðanir hafa verið á því hvort rétt sé að bólusetja börn í skólum, en Salvör Nordal, umboðsmaður barna, og Þorsteinn Sæberg, formaður skólastjórafélags Íslands, eru óánægð með þau áform. Helstu rökin eru þau að verið sé að stofna persónuvernd barna í hættu.

Ítrasta samráðs gætt

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir samráð hafa verið haft við mjög marga aðila varðandi bólusetningar barna á þessum aldri og bendir á að bólusetningarnar séu á herðum heilsugæslunnar þar sem mikil reynsla sé af því að bólusetja börn á skólaaldri, bæði í skólunum sjálfum og fyrir utan þá. „Ég held að við höfum gætt ítrasta samráðs og treyst okkar bestu aðilum sem sjá um bólusetningu til að framkvæma hana,“ segir Þórólfur.

Óskað hafi verið eftir því að notaðir verði frídagar til að bólusetja börn í skólum. „Skipulagið verður á þann hátt að við munum ekki safna mörgum saman í einu heldur mun fólk koma á tilsettum tímum,“ útskýrir hann.

Delta-afbrigðið enn ráðandi hjá börnum

Á fundinum kom fram spurning um hvort til greina kæmi að fresta bólusetningum barna en Kamilla segist ekki alveg átta sig á því hvers vegna ætti að gera það.

„Ég átta mig ekki alveg á af hverju við ættum að fresta þeim þegar þörfin er eins brýn og hún virðist vera til að koma þessu af stað sem fyrst. Við hefðum í rauninni viljað geta byrjað fyrr en framboð á bóluefninu leyfir það ekki fyrr en núna í þessari viku í fyrsta lagi og á landsvísu ekki fyrr en eftir helgi.“

Kamilla bendir á að Delta-afbrigði veirunnar sé enn ráðandi hjá þeim aldurshóp sem um ræðir, þrátt fyrir að Ómíkron-afbrigðið sé almennt orðið ráðandi hér á landi.

Fram séu komin gögn varðandi eldri einstaklinga að bóluefni verji gegn alvarlegri veikindum af völdum Ómíkron og Kamilla segir það aðalástæðuna fyrir því að börnum verði boðin þessi bólusetning. Vonast er til að bóluefnið veiti þeim jafnframt vörn gegn alvarlegri veikindum.

Þá segir hún tvær bólusetningar hjá börnum virka álíka vel gegn Delta-afbrigðinu og þrjár bólusetningar hjá fullorðnum. Bólusetning sé þá um 90 prósent virk til að koma í veg fyrir Covid-smit. Vonast er til þess að það verði einnig jákvæðar fréttir varðandi Ómíkron.

Mikilvægt að foreldrar taki afstöðu

Kamilla fór einnig yfir það hvernig boðun í bólusetningu verður háttað og hvað forsjáraðilar þurfa að gera til að samþykkja eða hafna bólusetningu.

Forsjáraðilar munu fá skilaboð um að þeim standi til boða bólusetning og tilgreint verður fyrir hvaða barn boðið á við. Í þeim skilaboðum verður hlekkur þar sem forsjáraðilar taka afstöðu hvort það eigi að þiggja bólusetningu í meginátakinu, hvort bólusetning bíður eða hvort forsjáraðilar hafna bólusetningu fyrir þetta barn.

Ef um er að ræða tvo forsjáraðila fá þeir báðir skilaboðin og geta tekið afstöðu hvor fyrir sig. Ef það er misræmi í afstöðu verður barnið ekki bólusett og ef það er ekki tekin afstaða verður barnið heldur ekki bólusett. Kamilla segir því mjög mikilvægt að foreldrar svari þessari beiðni um að taka afstöðu.

Í hlekknum sem fylgja skilaboðum til forsjáraðila verða líka upplýsingar um tilgang og tilætlaða virkni bóluefnisins. Í kjölfar þess að mætt er að staðinn fá forsjáraðilar jafnframt upplýsingar um aukaverkanir.

Boðin verða send út í lok vikunnar og bólusetningar hefjast í stórum stíl eftir helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka