Bólusetja 5-11 ára börn í Laugardalshöll

Eldri börnin verða bólusett í salnum.
Eldri börnin verða bólusett í salnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bólusetning barna á aldrinum fimm til ellefu ára gegn Covid-19 á höfuðborg­ar­svæðinu fer fram í Laugardalshöll í næstu viku. Ástæðan er mannekla. Áður átti að bólusetja í skólum.

Þetta staðfestir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæsl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, í samtali við mbl.is.

„Ómíkron er að slá okkur fast. Við erum orðin verulega hölt með mannskap. Plan A var að bólusetja í skólunum ef allt gæti gengið eftir. Plan B var að færa okkur í Laugardalshöllina ef við þurftum að þétta mannskapinn og mér sýnist það vera ofan á núna.

Eftir áhættumat sem við gerðum í morgun þá er stærsta áhættan mönnunin. Það eru 80-100 manns sem eru forfallaðir á hverjum degi og það er bara að bæta í dag frá degi. Það er áhættan sem við erum að bregðast við núna,“ segir Ragnheiður.

Sérúrræði fyrir yngri börnin

Stefnt er að því að byrja að bólusetja í hádeginu og ljúka deginum klukkan sex. Þannig gætu börnin verið í skólanum til hádegis en fengið frí eftir hádegi.

Þegar blaðamaður náði tali af Ragnheiði var hún á leiðinni í Laugardalshöllina til að skoða aðstæður.

„Við erum að fara að skoða aðstæður og ætlum að móta þær betur. Einungis elstu börnin fara inn í sal, yngri börnin væru í meira sérúrræði. Við ætlum líka að lengja í tímalínunni, hafa þá lengri tíma en fylgja annars því skipulagi sem er búið að vinna með skólunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka