Fá Covid-smit komu upp meðal farþega skemmtiferðaskipa sem sigldu við Íslandsstrendur í fyrra. Er það þakkað öflugum smitvörnum sem voru viðhafðar.
Fyrsta farþegaskip þessa árs er væntanlegt til Reykjavíkur miðvikudaginn 16. mars nk. Það heitir Borealis, 62 þúsund brúttótonn, og siglir undir hollensku flaggi. Þróun heimsfaraldurs Covid á næstu vikum mun leiða í ljós hvort þörf verður á jafn öflugum smitvörnum farþega næsta sumar og voru í fyrra.
Eins og fram hefur komið hér í blaðinu eru alls bókaðar 194 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna árið 2022 og með þeim komi um 219 þúsund farþegar. Bókunarstaðan, líkt og fyrri ár, byggist á væntingum skipafélaganna, en heimsfaraldurinn kann að setja strik í reikninginn eins og tvö síðustu sumur.
Alls voru 68 skipakomur farþegaskipa til Reykjavíkur árið 2021 með 18.950 farþega. Af þeim voru Bandaríkjamenn langflestir, eða 13.849. Skipakomum fjölgaði frá sumrinu 2020 en að sama skapi komu færri farþegar með hverju skipi en fyrr á árum, þar sem skipin sem komu hingað voru lítil og miðlungsstór. Stóru farþegaskipin, með 2.000 farþega eða fleiri, komu ekki til Íslands árið 2021 og ekki heldur árið áður.
„Skipakomur þessa árs voru að mestu hringsiglingar í kringum landið. Það þýðir að farþegar komu með flugi, gistu á hótelum, ferðuðust og versluðu innanlands áður en þeir fóru í siglinguna. Samfélagslega séð þá eru þetta verðmætir farþegar fyrir þjóðarbúið, því þeir staldra lengur við og stuðla að verðmætasköpun innanlands,“ segir í frétt á heimasíðu Faxaflóahafna.
Þar kemur ennfremur fram að þær reglur giltu í fyrrasumar að skip þurfti að vera í 14 daga á sjó áður en það kom til landsins til að teljast „hreint“. Skipstjóra bar skylda til að láta Landhelgisgæsluna vita af veikindum/smiti eigi síðar en 24 tímum fyrir komu skips til hafnar. Flest skipin veittu áhöfninni ekki leyfi til að fara í land. Var það gert til að forðast það að smit kæmi upp um borð.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.