Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir erfitt að segja til um hvort við höfum náð hámarki þessar bylgju kórónuveirunnar hér á landi, en þar sem svipaðar tölur hafi sést síðustu daga megi velta því fyrir sér. Smittölur næstu daga verði hins vegar að skera úr um það. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í morgun.
Hann bendir á að í Danmörku sé búist við því að hápunktinum verði náð síðar í janúar og að þessu fari ekki að linna þar fyrr en í lok janúar eða febrúar. „Við þurfum bara að sjá hvað næstu dagar segja okkur í daglegum fjöldatölum.“
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans, segir að átta af þeim þrjátíu sem liggi inni á Landspítala núna séu með Ómíkron-afbrigði veirunnar. Fimmtán séu með Delta-afbrigðið en niðurstaða raðgreiningar liggi ekki fyrir hjá sjö einstaklingum.
„Það eru átta staðfestir með Ómíkron þannig að fólk leggst líka inn þótt það sé ekki með Delta, þó að það sé með Ómíkron. Ég held að það sé mikilvægt að það komi fram,“ segir hún.
Spurð út í hvað spítalinn ráði við mikinn fjölda Covid-sjúklinga segir hún unnið eftir viðbragðsáætlun þar sem reynt sé að trappa upp deildir eftir því sem innlögnum fjölgi. Sú viðbragðsáætlun hafi verið í gildi frá því í júní árið 2020 og hafi staðist tímans tönn.