Vegna slæmrar veðurspár á næstunni hvetur Landhelgisgæslan til aðgæslu í höfnum og með ströndinni þar sem sjór getur gengið á land og á það sérstaklega við sunnan- og vestanlands.
„Veðurspár gera ráð fyrir suðaustan hvassviðri í fyrramálið en að heldur dragi úr vindi seinni partinn á morgun. Annað kvöld og aðfaranótt fimmtudags nálgast landið óvenju djúp lægð með mjög hvössum suðlægum vindi og mikilli ölduhæð og má því gera ráð fyrir miklum áhlaðanda,“ segir í tilkynningu Gæslunnar.
Bent er á að stórstreymt sé í dag en næstu daga megi einnig gera ráð fyrir óvenju hárri sjávarstöðu vegna áhlaðanda sem skapast vegna lágs loftþrýstings og ölduhæðar.