„Þetta er hræðilegt, það er ekki hægt að segja neitt annað. Þetta er örugglega eins og fólk upplifir þegar það er brotist inn til þeirra og það er búið að fikta í öllu dótinu þínu,“ segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
Erlendir tölvuþrjótar komust yfir viðkvæm gögn hjá Strætó í lok desember. Brutust þeir inn í kerfi Strætó og afrituðu gögn og upplýsingar sem þar var að finna.
Tölvuþrjótarnir hafa krafið Strætó um greiðslu með frest fram til loka morgundagsins. Verði Strætó ekki við kröfum þeirra hafa þeir hótað að leka gögnum Strætó á netið. Netöryggissveit Íslands hefur ráðlagt Strætó að borga ekki.
Jóhannes segir stöðuna óþægilega fyrir alla starfsmenn Strætó og að ekki sé vitað hvað verði gert við gögnin verði þeim lekið.
„En við vitum ekki hvað þeir gera við þetta, hvort þeir birti þetta bara væntanlega á þessum svarta vef og ekkert meira en það er bara algjörlega óráðið. Það er mjög óþægilegt að vita til þess að það sé eitthvað á sveimi þarna á netinu.“
Ekki hefur komið í ljós hvernig tölvuþrjótarnir náðu upplýsingunum og segir Jóhannes það óvíst hvort hægt verði að komast að því.
„Þessir aðilar skilja ekki neitt eftir sig þannig að þetta er mjög erfitt og gríðarlegt magn gagna sem þarf að fara í gegnum og við höfum alveg fengið að vita það að það er ekkert víst að það komi í ljós hvernig þetta var gert.
Við erum allavega búin að girða fyrir að okkar mati fyrir allar inngönguleiðir núna en þessir aðilar eru náttúrulega alltaf skrefi á undan öllum öryggisfyrirtækjum, það er bara svoleiðis.“
Jóhannes segir að mögulega komi eitthvað meira í ljós á morgun þegar fresturinn sem tölvuþrjótarnir gáfu Strætó rennur upp eða í síðasta lagi á föstudag.