Ráðherra endurskoði ákvarðanir um bólusetningar barna

Atli Árnason.
Atli Árnason.

Atli Árnason heimilislæknir skrifar opið bréf til Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra í Morgunblaðinu í dag þar sem Atli biður ráðherra um að endurskoða frá grunni ákvarðanir um að bjóða Covid-19 bólusetningu fyrir öll börn á aldrinum 5-11 ára án tillits til áhættu barnanna af því að fá Covid-sýkingu af Ómíkron-afbrigðinu. Hann hvetur ráðherra til að fresta boði um bólusetningu um 4-6 vikur.

„Mér finnst á stundum kappið og dugnaðurinn við framkvæmd bólusetninganna bera forsjána ofurliði,“ skrifar Atli. 

Hann segir að opinber málflutningur í fjölmiðlum í tengslum við bólusetningar 5-11 ára barna hafi verið einhliða og því telji hann sig „heimilislækni með áratuga starfsreynslu og mikinn áhuga á bólusetningum og smitsjúkdómum, því miður knúinn til að leggja hér orð í belg með hagsmuni barnanna að leiðarljósi“.

Aðrar aðstæður þegar ákvörðun um bólusetningu hafi verið tekin

„Erindið er að biðja þig um að endurskoða frá grunni ákvarðanir um að bjóða Covid-19-bólusetningu, sem sannanlega hefur lélega smitvörn gagnvart núríkjandi afbrigði Ómíkron, fyrir öll þessi börn án tillits til áhættu barnanna af því að fá Covid-19-sýkingu af afbrigðinu.

Þegar ákvörðunin var tekin um bólusetningu þessa aldurshóps hér og á öðrum Vesturlöndum, voru allt aðrar aðstæður og tölulegar staðreyndir heldur en blasa við í dag. Svo kom Ómíkron og þegar þetta er skrifað er Ómíkron þegar >90% greindra smita á Íslandi og á góðri leið með að ryðja öðrum afbrigðum Covid-19 burt (sbr. nýjar UK-tölur frá 24. des.).

Nú er Ómíkron-afbrigðið af Covid-19 svo nýtt að allir eru enn að safna gögnum. Tölfræðileg gögn okkar á Íslandi eru að mínu mati sennilega betri en í flestum öðrum löndum. Hér er tekið mikið af PCR-prófum og öll jákvæð sýni ræktuð og flokkuð og greind á hraðasta hátt miðlægt með aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar,“ skrifar Atli. 

Ráðherra fresti boði um bólusetningu um 4-6 vikur

Hann hvetur ráðherra til að fresta boði um bólusetningu 5-11 ára barna um 4-6 vikur. „Mögulega ekki þeirra barna sem skilgreind væru sem áhættuhópar varðandi Covid-19 vegna annarra sjúkdóma eins og sums staðar hefur verið lagt til sem millileið meðan frekari upplýsingar eru að safnast saman. Við erum því ekki að falla á tíma nema síður sé og ýmsir sérfræðingar hafa einmitt varað við að vera í stórum bólusetningaherferðum í miðju flóði smits,“ segir Atli. 

„Ef einhverjir telja þetta bréf sérstaka árás á sig þá er ég ekki að leita að sökudólgum heldur að leita að einhverju sem hægt er að sameinast um. Við verðum að umgangast þekkingu okkar og þekkingarleysi á þessum nýja vírus af hógværð og virðingu. Þess vegna ber að fara af varfærni í allar aðgerðir og vera alltaf viss um að skapa ekki meiri skaða með þeim en annars hefði orðið,“ segir Atli í lok bréfsins. 

Áskrifendur Morgunblaðsins geta lesið bréfið hér í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert