Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, mun ekki sækja um endurráðningu þegar öðru fimm ára starfstímabili hennar lýkur á vori komanda. Embættið verður auglýst laust til umsóknar á næstu dögum.
Erla hefur sagt samstarfsfólki sínu frá ákvörðuninni. „Þegar ég tók við starfi rektors fyrir næstum því tíu árum lýsti ég því yfir að mér þætti hæfilegur starfstími stjórnanda opinberrar stofnunar vera tvö tímabil,“ segir Erla Björk um ákvörðun sína. Hún tók við embætti 1. apríl 2012.
Erla Björk segist ekki vita hvað taki við. „Ég hef hoppað til og frá í gegnum lífið og aldrei verið með skipulag á því hvert lífið leiðir mig. Ég hef alltaf fengið eitthvað í fangið og stóla á að það gerist núna,“ segir hún.