Jón Halldór Garðarsson, íþróttafræðingur, íþróttasálfræðingur og yfirgolfkennari í eigin skóla, hefur búið erlendis undanfarin tæp 38 ár. Þar hefur hann verið í námi, spilað fótbolta og þjálfað fótboltalið, en kennt golf lengst af, fyrst í Þýskalandi í um 23 ár og frá því 2018 á Spáni. Auk þess hefur hann leiðbeint vinum sínum og öðrum kylfingum í heimsóknum til Íslands og verið með golfkennslu hérlendis í júlí og ágúst. „Ég nota tímann í jólafríinu til að lagfæra sveifluna hjá vinum mínum,“ segir hann og leggur áherslu á að hann kenni áhugafólki, landsliðsmönnum og atvinnukylfingum.
Golfkennslan var algjör tilviljun hjá Jóni Halldóri. Hann fór til Þýskalands 1984 til þess að spila fótbolta, en notaði frítímann í nám og útskrifaðist frá Íþróttaháskólanum í Köln 1998. Hann var vel liðtækur í golfi og yfirmaður félagsfræðideildar skólans hafði spurnir af því. „Hann spurði mig hvort ég gæti hjálpað sér í golfinu og þannig datt ég inn í golfkennsluna.“
Jón Halldór rak eigin golfskóla í Paderborn í tíu ár og síðan í Lippstadt í annan áratug. Árið 2002 útskrifaðist hann frá þýska PGA-golfkennaraskólanum, en til að fá inngöngu þurfa nemendur að vera með undir fjórum í forgjöf og spila sjö hringi því til staðfestingar. Síðan hefur hann kennt kylfingum í golfkennaranámi, meðal annars einum Íslendingi. „Ég er á meðal menntuðustu golfkennara í Evrópu,“ staðhæfir hann og bætir við að fjölbreytt nám komi sér vel í kennslunni. „Sálfræðin hefur mikið að segja og annaðhvort kunna kennarar að hjálpa fólki með tæknina eða ekki. Ef ekki eiga þeir að snúa sér að öðru.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.