Birgir Edwald, skólastjóri Sunnulækjarskóla á Selfossi, segir það ekki hafa komið sér á óvart að mögulegt smit hafi komið upp í skólanum eftir að hann var opnaður aftur í gær eftir jólafrí, inntur eftir því.
„Við erum ýmsu vön og vitum að það þarf að bregðast hratt við þegar svona gerist,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Samkvæmt Birgi hafði nemandi í 10. bekk orðið slappur eftir að hann mætti í skólann í gærmorgun og þar af leiðandi fengið að fara heim.
„Þegar heim var komið tók hann heimapróf sem reyndist svo vera jákvætt“.
Nemandinn hafi svo í kjölfarið farið í PCR-próf og bíður nú eftir niðurstöðum úr því.
Aðeins um tvær klukkustundir höfðu liðið af þessum fyrsta skóladegi ársins þegar upp komst um mögulegt smit nemandans og ákváðu skólastjórnendur í kjölfarið að senda allan árganginn heim.
Spurður hvort það hafi ekki verið full hörð viðbrögð í ljósi þess að niðurstaða úr PCR-prófi nemandans lægi ekki fyrir segir Birgir skólann ekki hafa skikkað nein börn í sóttkví heldur hafi þau verið send heim í varúðarskyni.
„Við erum ekki að senda neinn í sóttkví. Við sendum börnin eiginlega bara í skjól, upplýstum fólk um stöðuna og báðum það um að hafa varann á. Þannig við séum örugglega ekki að taka neina sénsa.“
Það sé svo foreldranna að ákveða hvort börnin verði heima þar til niðurstaða úr PCR-prófi samnemanda þeirra liggur fyrir.
„Við treystum foreldrum til að leggja mat á það. Þeir vita nákvæmlega hvernig í pottinn er búið. Sóttkví er hins vegar eitthvað sem rakningarteymið kemur að og það hefur ekki komið neitt að þessu máli því það er ekki komin niðurstaða úr prófinu.“
Hefði verið betra að bíða með að opna skólana?
„Við erum ekki með neina opinbera skoðun á því. Við höfum að minnsta kosti fimm sinnum farið í smitrakningu hér í skólanum svo þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt fyrir okkur. Við vitum að svona er Ísland bara í dag og að allir eru að reyna gera sitt besta.“