Aftakaveður var á Austurlandi á mánudaginn síðastliðinn sem olli miklu brimi við ströndina. Sjór gekk á land á Borgarfirði eystra og olli m.a. skemmdum í smábátahöfninni við Hafnarhólma, þar sem bátar losnuðu frá bryggju og kamar fór á flug. Þetta segir Eyþór Stefánsson, staðgengill starfsmanns heimastjórnar á Borgarfirði eystra, í samtali við mbl.is.
Spurður út í umfang óveðurstjónsins segir Stefán ekki alveg búið að meta það til fjár.
„Þetta er kannski ekki alveg eins mikið tjón og maður óttaðist. Mesta tjónið var í höfninni.“
Þar hafi m.a. sjóvarnir losnað, kamar farið í sjóinn, klæðning í höfninni rifnað og bátar losnað frá bryggju.
„Það vill nú til að tengdapabbi minn á þrjá báta hérna í höfninni og þegar ég spurði hann út í þetta var hann sannfærður um að einhverjar skemmdir hefðu orðið á einhverjum bátum en það hefur ekki verið staðfest ennþá. Bátarnir fengu samt alveg greinilega að finna fyrir því. Utan á séð er þó ekkert mikið annað að sjá en einhverjar skrámur.“
Inntur eftir því segir hann bæinn sjálfan hafa sloppið ágætlega í óveðrinu en mikið af sjó og grjóti hafi flætt upp á Þórsgötuna sem liggur í gegnum þorpið. Nú þegar sé þó búið að hreinsa upp mestallt grjótið.
„Það er ennþá eitthvert grjót eftir bæði í höfninni og svo niðri við námuna, sem er við Ósbæinn. Það lokaðist vegurinn inn að henni. Við ætlum að senda bæjarstarfsmenn í að opna þann veg aftur í dag held ég.“
Þá hafi einnig orðið einhverjar skemmdir á gistiheimilinu Blábjörgum, sem er í gamla frystihúsinu niðri við sjó, og á veitubrunnum í bænum.
„Það eru sjáanlegar dældir á klæðningu gistiheimilisins og spýtur brotnar á pallinum við húsið. Svo urðu minniháttar skemmdir á einhverjum veitubrunnum í bænum líka en okkur sýnist að aðalbrunnarnir hafi sloppið vel. Þannig að það hefur ekki haft teljandi áhrif á íbúana. Ég hef ekki frétt af neinu stórkostlegu tjóni fyrir utan það“.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gistiheimilið Blábjörg verður fyrir barðinu á veðurguðunum en árið 2019 fóru heitir pottar á flug við gistiheimilið og sjór flæddi inn í eina af íbúðum gistiheimilisins í miklu óveðri. Að sögn Eyþórs hafði gleymst að loka hurð að umræddri íbúð sem varð til þess að sjórinn flæddi inn um dyrnar það árið.
Inntur eftir því segir Eyþór bæjaryfirvöld vera róleg yfir næsta stormi sem á að ríða yfir landið í nótt og ná hámarki á morgun. Menn séu eins viðbúnir honum og hægt er.
„Þetta fer náttúrulega allt eftir sjávarstöðu og úr hvaða átt það blæs, hvort það sé von á brimi. Á mánudaginn var það brimið sem var að skemma frekar en rokið sjálft. Ég held að það sé stórstreymi núna þannig að það væri ansi leiðinlegt að fá jafn mikið brim á morgun. Af veðurspánni sýnist mér samt eiga að vera suðaustanátt á morgun og vegna legu Borgarfjarðar held ég að það þurfi ekki að óttast álíka brim.“