Einstaklingar, sem greinast með Covid-19, geta nálgast upplýsingar um hvaða afbrigði Covid-19 þeir eru með því að fylla út eyðublað á heimasíðu landlæknis og senda það svo á móttöku embættisins. Unnið er að því að gera ferlið aðgengilegra og þægilegra.
Þetta segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í skriflegu svari til mbl.is.
Vinnan miðar að því að upplýsingar um afbrigði veirunnar komi sjálfvirkt inn á Heilsuveru hvers og eins. Hins vegar muni ávallt taka nokkra daga að fá niðurstöðu úr raðgreiningu.
Í millitíðinni er hægt að sækja þessar upplýsingar með því að fylla út eyðublað nr. 9. Síðan skal senda þetta eyðublað útfyllt á mottaka@landlaeknir.is.