Vonskuveðrið sem gengur yfir landið í kvöld og nótt verður einna verst suðvestan til og færir sig síðan norðar á vesturströnd landsins.
Spáð er allt að 25-30 m/s sums staðar á Suður- og Vesturlandi.
Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á vakt Veðurstofu Íslands, segir aðspurður að ekki verði hægt að tala um að veðrið gangi niður í fyrramálið heldur frekar að dragi úr því. Spáð er áframhaldandi vindaveðrum út vikuna.
Lægðin sem stefnir í átt að landinu og er forsenda þeirra gulu viðvarana sem taka gildi seint í kvöld, verður undir 930 millibörum og því nokkuð djúp. Haraldur vísar á bug ábendingu sem blaðamaður ber upp við hann um að það sé einhvers konar metlægð. Talsvert dýpri lægðir hafi mælst áður.
Vegna slæmrar veðurspár á næstunni hvetur Landhelgisgæslan til aðgæslu í höfnum og með ströndinni þar sem sjór getur gengið á land og á það sérstaklega við sunnan- og vestanlands.