Ásgeir nýtti ekki hugmyndir Bergsveins

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri. mbl.is/Arnþór Birkisson

Helgi Þorláksson, prófessor emeritus, segir í álitsgerð, að dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi ekki nýtt sér hugmyndir Bergsveins Birgissonar í bók sinni um landnám Íslands og samfélagsmyndun. Þær séu ekki óþekktar og geti allt eins verið komnar annars staðar frá.

Sem kunnugt er setti Bergsveinn fram ásakanir fyrir rétt rúmum mánuði um að í bók Ásgeirs, Eyjunni hans Ingólfs, væri að finna dæmi um umfangsmikinn rit- eða hugmyndastuld. Var svo nokkuð um það þrefað.

Í facebookfærslu nú fyrir stundu segir seðlabankastjóri að þegar svo þungar ásakanir séu lagðar fram gegn æru sinni og persónu skipti miklu máli hvernig svarað er. Hann hafi því óskað eftir því við Helga að hann færi yfir málið, enda væri hann sá núlfifandi maður „sem verður að telja einna fróðastan í sögu landnámsaldar hérlendis“.

Í álitsgerð Helga er farið yfir málið, en niðurstaðan er í skömmu máli sú að ekki sé grundvöllur fyrir ásökunum Bergsveins. Bæði sé tengingin ekki augljós og hugmyndir viðteknari en svo að Bergsveinn geti rakið þær með öllu til sín. Þar segir í niðurlagi ályktunarinnar:

„Í framhaldi af þessu koma þung orð Bergsveins um „ritstuld“ og „þjófnað“ Ásgeirs, hvernig hann hafi „stolið og rangfært“. Bergsveinn telur ekki að Ásgeir taki orðrétt upp eftir sér en að ritstuldurinn sé hugmyndastuldur og honum hafi því borið að vísa til [bókar sinnar, Leitinni að svarta víkingnum]. Hér hefur verið leitt í ljós að Ásgeir hefur ekki nýtt sér hugmyndir frá Bergsveini, amk. ekki í dæmunum sem Bergsveinn rekur. Hugmyndirnar geta eins verið komnar annars staðar frá. Efnisleg tengsl við rit Bergsveins eru ekki eins mikil og hann lætur.“

Þá er til tekið að þó að bók Ásgeirs megi kallast fræðirit, þá sé hann þar að fjalla um efnið á alþýðlegan hátt sem leikmaður. Kröfur um tilvísanir og heimildaskráningu eigi því ekki við.

„Rit Ásgeirs er á sinn hátt fræðirit en ekki á sérsviði hans í hagfræði heldur er viðfangsefni hans landnámið og meginheimildin um það, Landnáma. Ásgeir hefur kynnt sér hana sem leikmaður, ber ekki við að ræða gerðir hennar fræðilega en slær föstu að hana megi nýta betur en gert hafi verið um landnámið. Hér er litið svo á að nálgun Ásgeirs sé þannig vaxin að hann hljóti að hafa frjálsar hendur um það hvenær hann vísar til rita. Kenningar og tilgátur um Ísland sem veiðistöð og rostungsveiðar við upphaf landnáms eru svo þekktar og viðurkenndar að eðlilegt er að Ásgeir vísi ekki sérstaklega í rit um þetta.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert