Brekkustólar heimilislausir eftir að skúr sprakk

Kofinn lyftist og hurðirnar opnuðust í vonskuveðrinu.
Kofinn lyftist og hurðirnar opnuðust í vonskuveðrinu. mbl.is/ Óskar Pétur

Geymsluskúr sprakk í Vestamannaeyjum í vonskuveðri næturinnar. Eigendur skúrsins höfðu bundið hann niður en það dugaði ekki gegn veðuröflum næturinnar. 

Var þetta eina útkall björgunarsveitarmanna í Vestmannaeyjum, en á leið sinni til baka björguðu þeir einnig ruslatunnum sem höfðu fokið til í veðrinu og öskutunnugeymslu sem hafði aflagast. 

„Veðrið hefur alveg verið verra,“ segir Arnór Arnórsson, formaður björgunarfélags Vestmannaeyja. Vindur fór upp í allt að 32 metra á sekúndu í hörðustu hviðum.

Brekkustólarnir heimilislausir

Í einum garði var kofi sem Birna Guðmundsdóttir á. Þar hefur hún geymt brekkustólana fyrir þjóðhátíð, rúm, grill og fleira.

„Ég bara kíki út um gluggann klukkan ellefu eða hálf tólf og þá er hann farinn að lyftast að framan og hurðirnar að losna,“ segir Birna. 

Hún hringdi þá á lögregluna og björgunarsveitarmenn mættu á vettvang, tíndu dótið úr skúrnum, komu því saman í hrúgu og bundu niður. 

Birna lýsir því að skúrinn hafi verið tættur í sundur af björgunarsveitarmönnunum, botninn sé enn fastur við jörðu. Rúmið og hurðirnar fari á haugana en öðru sem skúrinn hýsti þurfi að finna nýjan stað. Hún er þó ekki viss um að skúrinn verði endurnýjaður. 

Rúmið fer á haugana.
Rúmið fer á haugana. mbl.is/ Óskar Pétur
Ekki er víst að skúrinn verði endurnýjaður.
Ekki er víst að skúrinn verði endurnýjaður. mbl.is/ Óskar Pétur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert