Gert er ráð fyrir að um 300 íbúðir verði byggðar í nýju Holtahverfi austan Krossanesbrautar á Akureyri, en fyrsta skóflustunga var tekin í gær. Framkvæmdir við fyrsta áfanga í gatnagerð og lagnavinnu hefjast í kjölfar þess að skóflustungan var tekin, en Nesbræður áttu lægsta tilboð í það verkefni, 315 milljónir.
Í verkinu felast einkum jarðvegsskipti vegna gatna, gangstétta og stíga, lagnavinna, gerð útivistarstíga og jarðvegsskipti fyrir leiksvæði og áningarstaði. Verkinu er skipt í tvo hluta og er áætlað að þeim fyrri verði lokið í byrjun maí og seinni um miðjan október á komandi hausti.
Fyrstu byggingarlóðum í hverfinu var úthlutað nýverið og var mikill áhugi og umframeftirspurn bæði frá einstaklingum og lögaðilum. Alls verða 140 íbúðir í þeim áfanga. Skóflustunga var tekin á svæði sem Búfesti hefur fengið til umráða en félagið mun í samvinnu við Félag eldri borgara á Akureyri byggja allt að 140 íbúðir á því svæði og hefjast framkvæmdir við það verkefni í vor.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.