Nýliðinn desember var hægviðrasamur og tíð almennt góð. Að tiltölu var snjólétt á landinu, einkum um miðbik mánaðarins. Þetta kemur fram í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar.
Undir lok mánaðar snjóaði töluvert á Norðausturlandi og var jafnfallinn snjór á Akureyri 47 sentimetrar á gamlársdag. Fyrri hluti mánaðar var þurr á Norðurlandi á meðan úrkomusamara var suðvestanlands. Síðari hluti mánaðarins var hins vegar þurr á Suðvesturlandi og kviknuðu víða gróðureldar um áramótin í tengslum við flugelda.
Meðalhiti desembermánaðar var 1,5 stig í Reykjavík. Það er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,0 stigi yfir meðallagi undanfarinna tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,2 stig sem er 0,5 stigum undir meðallagi undanfarinna þriggja áratuga og 0,2 stigum undir meðallagi síðastliðins áratugar. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,9 stig og 1,2 stig á Höfn í Hornafirði.
Heildarúrkoma mánaðarins í Reykjavík mældist 92,2 millimetrar sem er 2,7 mm undir meðallagi desembermánaðar áranna 1991 til 2020 og 97% af meðalúrkomu þess tímabils. Á Akureyri var heildarúrkoma mánaðarins 46,8 mm sem eru um 64% af meðalúrkomu undanfarinna þriggja áratuga.
Jörð var alauð 17 desembermorgna í Reykjavík og alhvít sex morgna, sex færri en að meðallagi undanfarinna þriggja áratuga. Á Akureyri voru alauðir morgnar 10 og alhvítir morgnar 15.