Dularfulli bókaþjófurinn handtekinn

Þjófurinn hefur náð að sanka að sér fleiri hundruð handrit, …
Þjófurinn hefur náð að sanka að sér fleiri hundruð handrit, þvert á landamæri, meðal annars frá Íslandi. Ljósmynd/Colourbox

Alræmdi bókaþjófurinn sem hrellt hefur heim rithöfunda, forleggjara og þýðenda síðastliðin fimm ár, með því að villa á sér heimildir og fá fólk þannig til að senda sér óútgefin handrit, hefur verið handtekinn. 

Ethan Hawke og Margraret Atwood, heimsþekktir höfundar, eru meðal þeirra sem fallið hafa fyrir brögðum hans. Þjófurinn hefur náð að sanka að sér fleiri hundruð handrit, þvert á landamæri, meðal annars frá Íslandi. Aldrei krafðist hann þó lausnagjalds fyrir þau og því óljóst hvað honum gekk til.

Þrjóturinn sem um ræðir er hinn 29 ára gamli Filipo Bernardin. Meðfram svikum sínum hefur sjálfur unnið hjá bókaútgáfunni Simon & Schuster í Bretlandi. 

Samkvæmt upplýsingum á LinkedIn reikningi Bernardin er hann með bakkalársgráðu í kínversku frá háskóla í Mílan ásamt meistaragráðu í bókaútgáfu frá háskólanum í London (e. University College London). Auk þess talar hann tíu tungumál.

Góður í íslensku

Hólmfríður Úa Matthíasdóttir, útgefandi Forlagsins, segir létti að heyra af handtökunni. Hún fékk nokkra tölvupósta frá Bernardin þar sem hann villti á sér heimildir og óskaði eftir handritum.

Bókaþjófurinn reyndi að blekkja Hólmfríði úr fleiri en einu netfangi, en þegar hún sá við honum, sendi hann henni hótun þar sem hann kvaðst vita hvar hún byggi. 

Þá þóttist hann eitt sinn vera Hólmfríður og sendi tölvupóst á skáldið Sjón, undir hennar nafni, á góðri íslensku.  

Hólmfríður Úa Matthíasdóttir útgefandi hjá Forlaginu
Hólmfríður Úa Matthíasdóttir útgefandi hjá Forlaginu Ljósmynd/Aðsend

Gróf undan trausti í heimi útgefenda

„Hann hefur haft mikil áhrif á útgáfuheiminn, okkar samstarf byggir á trausti. Þegar þú getur ekki treyst því að sá sem er að skrifa sé sá sem hann segist vera, ertu að grafa undan þessu trausti.“

Hún segist hafa verið með á hreinu að bókaþjófurinn væri einhver sem hefði unnið í útgáfuheiminum. Hann hafi kunnað orðræðuna sem tíðkast innan greinarinnar og þekkt ferlið út og inn.

„Það merkilega er að þegar ég sé nafnið á þessum manni þá áttaði ég mig á því að ég hef verið í samskiptum við hann áður, undir hans eigin nafni."

Hún óttast engu að síður að það kunni fleiri að vera með Bernardin í svikunum og mun því ekki láta varkárnina til hliðar alveg strax, enda sé mikil vinna að standa í svo vönduðum blekkingum. 

Sendi þjófnum Þungský

Einar Kárason rithöfundur er einn þeirra sem fallið hefur fyrir brögðum Bernardins, en hann sendi honum handritið að skáldsögunni Þungský sem kom út í september.  

„Ég fékk þarna tölvupóst frá norskri konu sem ég þekki vel og fannst eðlilegt að hún vildi lesa bókina,“ segir Einar. 

Hann lét svo réttindaskrofstofu Forlagsins vita og var bent á að athuga netfangið betur. Þá áttaði hann sig á því að m-ið í netfanginu var í raun r og n. „Það lítur auðvitað út eins og m.“

Einar tók þessu þó af æðruleysi þar sem hann skildi ekki hvaða gagn bókaþjófurinn kynni að hafa af uppatækinu, bókin væri hvort eð er væntanleg í verslanir og á rafrænu formi.

Einar Kárason rithöfundur tók stuldinum af æðruleysi.
Einar Kárason rithöfundur tók stuldinum af æðruleysi. mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson

Ekki öll kurl komin til grafar

Valgerður Benediktsdóttir á réttindaskrifstofu Forlagsins segist hafa heyrt í ýmsum erlendum kollegum sínum í dag vegna fréttanna af handtöku bókaþjófsins. „Þeim finnst þetta verulega dularfullt, enda ekki öll kurl komin til grafar. “

Enn skilji enginn hvatann og hvort hann hafi getað staðið einn að þessu. 

Flestir séu þó sammála um að þetta kalli á bíómynd eða skáldsögu.

Valgerður Benediktsdóttir hjá réttindaskrifatofu Forlagsins.
Valgerður Benediktsdóttir hjá réttindaskrifatofu Forlagsins. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka