Einn fullbólusettur á gjörgæslu með Ómíkron

Sjö liggja á gjörgæsludeild Landspítalans með Covid-19.
Sjö liggja á gjörgæsludeild Landspítalans með Covid-19. mbl.is/Jón Pétur

Einn fullbólusettur einstaklingur liggur á gjörgæsludeild Landspítalans með Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar. Hann hefur fengið tvær bólusetningar, en ekki örvunarskammt. Tveir fullbólusettir einstaklingar til viðbótar liggja á gjörgæslunni en ekki er vitað um þeirra afbrigði. Hvorugur hefur fengið örvunarskammt.

Alls liggja sjö einstaklingar á gjörgæslu smitaðir af Covid-19, þar af eru sex í öndunarvél. Þetta staðfestir Landspítalinn.

Samtals liggja 32 einstaklingar á Landspítala smitaðir af Covid-19, en Ómíkron-afbrigði veirunnar hefur verið staðfest hjá níu þeirra.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það þó enn nokkuð ljóst að langflestir þeirra sem séu alvarlega veikir af Covid-19 séu óbólusettir.

„Það er nokkuð ljóst að langflestir þeirra sem eru alvarlega veikir inni á spítalanum eru óbólusettir. Á gjörgæslu eru einn til tveir sem eru bólusettir, þannig það eru nánast allir óbólusettir. Og þó þeir þurfi ekki að leggjast inn þá eru þeir miklu lengur að ná sér og þeir dvelja líka lengur á spítalanum heldur en bólusetta fólkið.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert