Starfsmaður á leikskólanum á Djúpavogi greindist smitaður af Covid-19 á mánudag. Fátítt er að fjölmiðlar greini frá stöku smitum eins og er, en samkvæmt því sem mbl.is kemst næst er um að ræða fyrsta smitið í bænum frá því faraldurinn hófst. Guðrún Sigríður Sigurðardóttir, leikskólastjóri á Bjarkatúni, segir að leikskólinn verði lokaður fram yfir helgi.
„Jú ég held að þetta sé rétt. Að þetta sé sem sagt fyrsta smitið í bænum en það hefur áður verið smitaður einstaklingur með lögheimili á Djúpavogi sem þó býr ekki hér,“ segir Guðrún spurð hvort um sé að ræða fyrsta smitið.
Eins og áður segir var það starfsmaður á leikskólanum sem greindist smitaður á mánudaginn og vegna smæðar leikskólans þurftu allir að fara í sóttkví, börn jafnt sem starfsmenn. Ekki er hólfaskipt í leikskólanum þar sem fjöldi barna er ekki yfir fimmtíu og starfsmannafjöldi undir tuttugu.
Allir verða sendir í sýnatöku nú á laugardag og vænta má þess að niðurstöður berist á sunnudaginn. Verði raunin sú að ekki fleiri greinist jákvæðir opnar leikskólinn á mánudag. Reynist fleiri smitaðir verður brugðist við því þegar að því kemur.
Spurð hvernig stemmningin í bænum sé segir hún: „Mér finnst fólk bara taka þessu af ró og yfirvegun. Við vissum svo sem alltaf að þetta myndi gerast og þar sem allir bjuggust við þessu á einhverjum tímapunkti þá eru bara allir nokkuð rólegir.“
Guðrún segir að þrátt fyrir að ekkert smit hafi greinst hingað til hafi ávallt verið fylgt gildandi reglum og takmörkunum og gætt vel að sóttvörnum. Auk þess sé um að ræða afar lítið samfélag og fólk sé einfaldlega búið að halda sig mikið heima og lítið farið í burtu.
Hún veit þá ekki til þess að annarri starfsemi hafi verið lokað í bænum vegna smitsins. Leikskólinn sé í raun bara lokaður vegna þess hve fáir búa í bænum og eru á leikskólanum.
„Við erum bara það smá að eitt smit hefur þetta mikil áhrif.“