Náði fyrsta stórmeistaraáfanga

Vignir Vatnar Stefánsson, til vinstri, að tafli við Jóhann Hjartarson …
Vignir Vatnar Stefánsson, til vinstri, að tafli við Jóhann Hjartarson stjórmeistara. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Vignir Vatnar Stefánsson, 18 ára alþjóðlegur meistari í skák, náði í dag sínum fyrsta stórmeistaraáfanga með sigri í 8. umferð á skákmóti í Dublin á Írlandi. Stefnir hann hraðbyri að því að verða sextándi stórmeistari Íslendinga í skák, í karlaflokki.

Til að ná áfanganum þurfti Vignir sjö vinninga á mótinu. Það hafðist fyrir lokaumferðina, sem nú stendur yfir, að sögn Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands. Þar teflir Vignir við Írann David Fitzsimons.

Til að verða stórmeistari þarf þrjá slíka áfanga og einnig að ná 2.500 skákstigum. Vignir er kominn með 2.486 skákstig eftir umferðirnar átta. Hann er næst stigahæstur 20 keppenda á mótinu á Írlandi.

Fylgst er með mótinu á vef Skáksambandsins, skak.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert